Rabb-a-babb 115: Rakel Runólfs

Nafn: Rakel Runólfsdóttir.
Árgangur: 1978.
Fjölskylduhagir: Gift Kára Bragasyni, saman eigum við Aron Óla 12 ára og Ara Karl 5 ára, ég átti áður Karen Ástu 17 ára og svo á ég stjúpsoninn Dag Smára 16 ára.
Búseta: Hvammstangi.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Ég er fædd og uppalin á Siglufirði þar sem hjartað slær. Er dóttir Óla Birgis (Bigga Run) og Fríðu Alexanders.
Starf / nám: Ég er í skemmtilegustu vinnu í heimi sem umsjónarmaður dreifnáms FNV á Hvammstanga. Þar að auki sel ég túristum gistingu í Smáhýsunum á Hvammstanga.
Hvað er í deiglunni: Ég er að ljúka diplómanámi í opinberri stjórnsýslu, skipuleggja ættarmót og undirbúa sumarið í Smáhýsunum.

Hvernig nemandi varstu?  Sveimhugi stóð á einu einkunnaspjaldinu en annars gekk mér mjög vel í skóla þegar ég var krakki.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Tilfinningin er eftirminnilegust, ég var innilega stolt og glöð á þessum degi.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?  Flugfreyja og búðarkona.

Hvað hræðistu mest? Ég hef einusinni gert þau mistök að segja frá því hvað ég hræðist mest og geri það ekki aftur þar sem ég vinn með uppátækjasömum unglingum.

Besti ilmurinn? Mér finnst kókoslykt rosalega góð.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið (hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. 17 ára)? Cranberries, Green Day og Alanis Morissette voru mjög vinsæl á þessum tíma og ég hlustaði sennilega mest á þau árið 1995 en ég hélt alltaf haldið tryggð við Metallica, Nirvana og Guns’n Roses.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? 500 Miles með Proclaimers.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Núna er það Biggest loser Ísland en annars Modern family

Besta bíómyndin (af hverju)? Sódóma Reykjavík. Óskar Jónasson, Björn Jörundur og hljómsveitin Ham eru bara svo rosalegt tríó.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Aron Óli Kárason fótboltamaður í 5. Fl. Kormáks/Hvatar er uppáhalds.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ég er ennþá best á skíðum.  Ég er líka sú eina sem get fundið hluti, meira að segja í gegnum síma.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Ég get gert kjötsúpu, kjúklingasúpu og jafning (uppstúf) skammlaust en að öðru leyti er ég vonlaus í eldamennskunni.

Hættulegasta helgarnammið? Súkkulaði.

Hvernig er eggið best? Steikt öðru megin með ósprunginni rauðu með köd og grill kryddinu frá Knorr.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég bíð of oft með hlutina fram á síðustu stundu.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Yfirlæti.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  Einræður Starkaðar eftir Einar Ben eru í miklu uppáhaldi og ég reyni að hafa þær í huga og hjarta alla daga.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég man mjög vel þegar von var á nýjum fjölskyldumeðlim hjá nágrönnum okkar, ég var viss um að þetta væri stelpa og ég ætlaði að gefa henna bleika sokka. Ég var 4 og hálfs árs þegar Doddi litli (Þórður Birgisson) fæddist og sennilega er það fyrsta minningin sem ég get verið viss um að sé rétt.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Homer Simpson.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera (og af hverju)? Ellen Degeneres af því að mér finnst hún stórkostleg, fyndin, góhjörtuð og vinur allra.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur (og af hverju)?  Svartar fjaðrir eftir Davíð Stefánsson. Dálæti á Davíð gengur í beinan kvenlegg í minni fjölskyldu. Það er bara öll þessi ást, rómantík, samúð og glettni sem höfðar til mín.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Það var ógeðslega fyndið.“

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Fyrir mig persónulega er það mamma mín Hólmfríður Alexandersdóttir.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu (og af hverju)? Ég færi til Siglufjarðar um sumarið 1960, þegar síldarævintýrið var í hámarki, landlega, þúsundir manna í miðbænum og ball með Hauki Morthens á Hótel Höfn. Þetta var einstakur tími sem mér hefur alltaf þótt mjög spennandi.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Súrmjólk í hádeginu og cheerios á kvöldin.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Santorini eða einhverra af þessum fallegu eyjum við Grikkland.

Ef þú ættir að dvelja alein á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Hvítvínsflösku, Svartar fjaðrir (ljóðabókina) og bát.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir