Rabb-a-babb 114: Haukur Þórðar

Nafn: Haukur Þórðarson.
Árgangur: 1968.
Fjölskylduhagir: Giftur og tvö börn.
Búseta: Borgarnes.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Sonur hjónanna Þórðar Stefánssonar frá Hrafnhóli í Hjaltadal og Rósu Bergsdóttur frá Nautabúi í Hjaltadal. Bjuggum fyrstu æviár mín að Hofi í Hjaltadal en fluttum síðan út í Marbæli í Óslandshlíð.
Starf / nám: Starfa hjá starfs- og endurmenntunardeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Hef lært vélvirkjun, búfræði og bifvélavirkjun.
Hvað er í deiglunni: Vinna í víkingalottóinu næsta miðvikudag.

Hvernig nemandi varstu? Hræðilegur tossi framan af en samviskusamur og fróðleiksfús þegar ég áttaði mig og varð loks  fullorðinn.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?Úrið sem ég fékk í fermingargjöf. Var heldur betur með tíman á hreinu sem eftir lifði dags. Á vel flestum myndunum sem teknar voru í veislunni sést það vel.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Draumastarfið var klárlega  tengt vinnu á dráttarvélum eins og hjá mörgum sveitadrengnum. Skoðaði og las af áhuga allt sem tengdist vélum þegar ég var lítill. Einnig voru draumar um að verða flugmaður og jafnvel atvinnuknattspyrnumaður. Draumurinn  rættist með dráttarvélarnar. Hóf störf hjá Rannsóknarstofnun Landbúnaðarins árið 2001 þar sem ég starfaði við að prófanir á nýjungum  og þessháttar í landbúnaðarvélum.  Nú kenni ég ungum bændaefnum og starfandi bændum að nota landbúnaðarvélar. Hugsanlega verður  einhverstaðar til atvinnumannadeild eldriborgara í framtíðinni og svo er aldrei of seint að læra að fljúga.

Hvað hræðistu mest? 
Í augnablikinu að Skallagrímur falli í körfunni í vor.

Besti ilmurinn? Ilmurinn af ný felldu barrtré.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Örugglega Out in the street eða The River með Bruce Springsteen af plötunni The River.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Out in the street.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Landsleikjum.

Besta bíómyndin? The Shawshank Redemption. Stórkostleg mynd sem lætur engan ósnortinn. Atriðið þegar Andy Dufresne leikinn af Tim Robbins er horfinn úr fangaklefanum einn morguninn og fangelsisstjórinn sem ég man ekki hvað heitir sviptir plakatinu af Raquel Welch frá gatinu sem Andy hafði verið að dunda við að búa til á nóttunni bak við plakatið síðustu tuttugu árin. Þetta er að mínu mati besta atriði sem sést hefur á hvíta tjaldinu.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Hélt gríðarlega upp á frjálsíþróttahetjuna Carl Lewis. Einnig lifir Argentínska tennisdrottningin Gabriela Sabatini vel í minningunni.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Lyfta fótunum þegar konan ryksugar.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Að baka pönnukökur

Hættulegasta helgarnammið? Súkkulaði rúsínur.

Hvernig er eggið best? Á rúgbrauði með kavíar.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Get verið svakalega gleyminn.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Menntahroki.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Sleðaferð niður brekkuna fyrir framan íbúðarhúsið á Hofi sem endaði á hvolfi. Líklega er ég þriggja ára en man þetta samt mjög vel.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? 
Tinni var og er í algeru uppáhaldi.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera (og af hverju)? Einu sinni hefði ég alveg verið til í að vera tenniskappinn Andre Agassi. Hann var jú giftur Gabrielu Sabatini.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur (og af hverju)? Þessa dagana á ég erfitt með að gera upp á milli Stefáns Mána og Jo Nesbø

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Sko.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? 
Nelson Mandela var einstakur maður. Sat í fangelsi í meira en tvo áratugi en bugaðist aldrei. Varð  forseti Suður-Afríku stuttu eftir að hann losnaði út og barðist þá eins og áður kröftuglega  fyrir jafnrétti og frið.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Traktorar á takkaskóm

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Kínamúrinn hefur lengi heillað.


Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Vasahnífur er algerlega nauðsynlegur og  góð bók að lesa. Best væri samt að hafa með svona lampa eins og Aladdin var með.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir