Rabb-a-babb 113: Tinna Mjöll
Nafn: Tinna Mjöll Karlsdóttir
Árgangur: 1982
Fjölskylduhagir: Á móður, föður, systur, máf (já, það er skrifað svona), systurdóttur, sambýling og naggrís
Búseta: Hinn nafli alheimsins, Breiðholt.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Dóttir Dísu í Skaffó og Kalla á Kaupfélagsskrifstofunni. Ólst upp í Barmahlíðinni.
Starf / nám: Meistaranemi í kynjafræði.
Hvað er í deiglunni: Vinna í mastersritgerðinni og skila henni inn í desember 2015.
Hvernig nemandi varstu? Ég var og er alveg hreint frábær nemandi. Held ég.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Gríðarleg einbeiting að detta ekki í hvíta kuflinum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Bóndi. Sá draumur varð að engu þegar ég áttaði mig á því að mér fannst fjósalykt vond. Svo er hefur forsetaembættið freistað. Útiloka ekkert í þeim efnum.
Hvað hræðistu mest? Umferðardólga.
Besti ilmurinn? Af nýjum bókum.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið (hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. 17 ára)? Jiiii… vil ég rifja það upp?? Örugglega hef ég verið að hlusta á GusGus og Todmobile… Britney Spears, Weezer og Skímó koma líka upp í hugann.
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Gin and Juice með Snoop Dog. Mikil stemming í því.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Útsvari. Er dyggur stuðningsmaður team Skagafjarðar og býð mig hér með fram sem liðsmann. Ekki sem símavin samt, týni símanum of oft til þess að að hægt sé að stóla á mig í því hlutverki.
Besta bíómyndin (af hverju)? Trainspotting. Allt við þessa mynd er gjörsamlega frábært.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Sollu systur minni og ævintýrum hennar í 10 km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoni og að sjálfsögðu honum Helga Frey, að mínu mati - lykilmanni í körfuboltaliði Tindastóls.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Sofa
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Tófúpottréttur. Snilldin fólst í því að þrátt fyrir allskonar krydd, jurtir og grænmeti var hann samt eins og svampur á bragðið.
Hættulegasta helgarnammið? Armani prosecco freyðivín.
Hvernig er eggið best? Í brauðtertum. Ef einhver heldur öðru fram þá hefur viðkomandi rangt fyrir sér.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Reyni að sýna sjálfri mér umburðarlyndi en mætti vera stundvísari á köflum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Stundvísi. Ég kem alltaf verr út í samanburðinum.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Góðir hlutir gerast hægt. Mottóið mitt í ritgerðarskrifum og strætóferðum.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Af litlu systur minni að reyna að ala mig upp. Hún hefur ekki hætt síðan!
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Peter Griffin í Family Guy.
Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera (og af hverju)? Er ansi sátt í eigin skinni en ef ég þyrfti að velja einhvern þá væri það tvímælalaust Elísabet Englandsdrottning. Hún veit of mikið af leyndarmálum sem mig langar að komast yfir og á fullt af flottum veskjum og kórónum.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur (og af hverju)? Ásta Sigurðardóttir og Svava Jakobsdóttir eru án nokkurs vafa uppáhalds rithöfundarnir mínir. Get ekki valið á milli verka þeirra.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? “Afsakið hvað ég er sein.”
Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Ég á erfitt með að ákveða mig þannig að ég vil tileinka þennan titil öllum einstaklingum og minnihlutahópum sem hafa brotist undan kúgun, barist fyrir tilvistarrétti og hlotið viðurkenningu, innlendis og erlendis.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu (og af hverju)? Myndi fara aftur til Hallgerðar og Gunnars þegar hún neitaði honum um hárlokk. Gefa henni high five og fara sátt til baka.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Ævintýri Tinnu á Bessastöðum
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Svalbarða. Þekki engan sem hefur farið þangað og er búin að bíta það í mig að þar sé paradís á jörðu.
Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Sæng, kodda og rúm. Restinni verður reddað á staðnum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.