Rabb-a-babb 112: Sonja Sif

Nafn: Sonja Sif Jóhannsdóttir.
Árgangur: 1975.
Fjölskylduhagir: Ég er í sambúð með Gunnar Atla Fríðusyni og við eigum 4 börn, það eru þau Kári 13 ára, Örvar 12 ára, Selma 10 ára og Kolbeinn 9 ára.
Búseta: Ég bý á Akureyri og í Mývatnssveit.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Ég er dóttir Jóhanns Þórs Friðgeirssonar og Elsu Stefánsdóttur og ég var svo heppin að fá að alast upp út um allan Skagafjörð (Fagranesi, Sauðárkróki, Viðvík, Hólum) en lengst ólst ég upp á dásemdarstaðnum Hofi á Höfðaströnd.
Starf / nám: Menntaskólakennari, forvarnarfulltrúi hjá TM og einkaþjálfari.
Hvað er í deiglunni: Njóta lífsins.

Hvernig nemandi varstu? -Ég var áhugsasöm og fróðleiksfús…á mörkum þess að vera kennarasleikja.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? -Fermingardagurinn er mjög eftirminnilegur því ég hafði um veturinn haft miklar áhyggjur af því að verða lágvaxin þegar ég yrði fullorðin. Mamma mín hafði verið 162 cm þegar hún fermdist og hafði ekkert stækkað eftir það. Ég veit ekki af hverju en mér fannst það ekki spennandi kostur – ég vildi verða hávaxin. Þannig að þegar ég vaknaði á fermingardaginn þá dró pabbi fram málband og bók og ég var hæðarmæld…grunur minn reyndist réttur, ég mældist 162 cm á hæð og mín hræðsla var að ég mundi ekkert stækka frekar, alveg eins og gerðist hjá mömmu. Alla athöfnina var ég að hugsa um þetta. Þegar ég fór að sofa um kvöldið lagðist ég í rúmið mitt og setti hvirfilinn alveg upp við höfuðgaflinn á rúminu og síðan teigði ég tærnar eins langt og ég gat að hinum gaflinum og taldi upp í 100…þetta gerði ég í 1 ár! Já ég er þrjósk…en það borgaði sig því ég er 170 cm í dag.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? -Tamningakona og íþróttakennari.

Hvað hræðistu mest? -Að mínir nánustu fái illvígan sjúkdóm.

Besti ilmurinn? -Er í hesthúsinu hjá pabba og af nýslegni grasi.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? -Árið 1992 var ég pottþétt að syngja hástöfum lög eins og: Under the Bridge (Red Hot Chili Peppers), To Be With you (Mr. Big), Bohemian Rhapsody (Queen), Tears In Heaven (Eric Clapton), Black or White (Michael Jakson), One (U2), Finally (CeCe Peniston), Everything About you (Ugly Kid Joe), Sálin hans Jóns míns var líka ofarlega á vinsældarlistanum og stundum læddist Villi Vill líka þarna inn á milli – ég hlustaði á allt nánast!

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? -Það er engin hætta á því að ég taki eitthvað lag í Kareókí – mundi ekki gera viðstöddum það!

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? -Það er nú ekkert sérstakt, horfi mjög lítið á sjónvarp.

Besta bíómyndin? -Í eintölu? Hmm, ég held að ég segi þá Forrest Gump, vegna þess að hún fjallar um mann sem er mjög einfaldur en samt með margbrotin persónuleika sem kemst langt í lífinu vegna þess að hann hefur hjartað á réttum stað.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? -Úff, þeir eru svo margir en þeir sem koma fyrst upp í hugann eru Guðjón Valur og Aníta Hinriksdóttir.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? -Þurrka af, svo er ég mjög öflug á ryksugunni.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? -Þau eru of fá en lagsagnað mitt hefur fengið þolanlega dóma.

Hættulegasta helgarnammið? -Lakkrís.

Hvernig er eggið best? -Steikt báðum megin.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? -Óþolinmæðin.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? -Óheiðarleiki og óstundvísi.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? -Lífið er eins og konfektkassi, maður veit aldrei hvernig mola maður fær næst.

Hver er elsta minningin sem þú átt? -Ég held að það sé minning sem ég á frá því ég var 3 eða 4 ára. Þá sit ég í fanginu á ömmu Ellu og hún er að syngja fyrir mig ,,Fagur fiskur í sjó,..fetta bretta, svo skal högg á hendi detta,, – Ég auðvitað reyndi að forða hendinni áður en hún næði henni og þetta fannst mér skemmtilegt og því var þetta endurtekið í gríð og erg.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? -Lukku Láki, hann var svo útsjónarsamur og svo hef ég alltaf heillast af kúrekum!

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? -David Attenborough – af því að hann hefur áorkað svo miklu í gegnum tíðina sem ég væri alveg til í að upplifa.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? -Erfitt að gera upp á milli, ég les mikið en ég held að ég nefni Sjálfstætt fólk og Skugga vindsins.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? -„Sko“ og “Ert'að grínast?“

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? -Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir Vigdísi Finnbogadóttur og vil því nefna hana. Hún var fyrsta konan í heiminum sem var kosin forseti í lýðræðislegri kosningu og það gerði það að verkum að áhersla á stöðu kvenna breyttist mjög mikið, ég tel að hún hafi haft gríðarlega jákvæð áhrif á mörgum sviðum.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? -Ég mundi fara aftur til bernskujóla og þau væri einhvern vegin svona um klukkan fimm aðfangadag: Eftirvæntingin sem hefur hlaðist upp síðastliðnar vikur er að ná hámarki. Biðin eftir að pabbi sé búinn í útiverkunum tekur við.... ég ýmist á þönum uppá klósett, kíki út um gluggann til að sjá hvort pabbi komi ekki lallandi heim hlaðið eða athuga hvort mömmu vanti hjálp með eitthvað til að stytta biðina. Biðin er erfið, gangurinn er óspart notaður til að hlaupa um hvort sem það er að valhoppa milli flísa eða eyða sparisokkunum með því að skauta enda á milli. Loksins heyrist kjallarahurðin opnast og pabbi birtist upp í eldhúsi, ljúfur hestailmurinn af honum blandast matarlyktinni. Þetta er ólýsanlegur ilmur sem grafið hefur sig í undirmeðvitundina, óútskýranlegur.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
 til Nýja-Sjálands.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? -Góða bók, góða ullarsokka og tannbursta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir