Rabb-a-babb 103: Áslaug
Nafn: Áslaug Árnadóttir Ragnarssonar Pálssonar.
Árgangur: 1971.
Fjölskylduhagir: Gift Michael Sloth, mamma Sólbjargar og Sven Magnúss, stjúpa Andreasar og Sebastians.
Búseta: Klokkerbakken í Árósum á Jótlandi.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Ég er dóttir Addý (sem sumir kalla Ásdísi) og Árna, og stoltur Dýllari. Ég fæddist á Ísafirði og hef búið í Árósum, Reykjavík, Vestmannaeyjum og á Krók. Maður telur ekki Akureyri með, er það? Ræturnar eru í Suðurgötunni, sem er besti staður í heimi - og ég tilheyri þeim hóp sem álítur Sauðárkrók nafla alheimsins. Dönsku börnin mín elska að koma á Krókinn, þar sem þau fá konunglegar móttökur út um allan bæ.
Starf / nám: Ég er menntuð arkitekt og skipulagsfræðingur, en vinn að því að söðla um.
Hvað er í deiglunni: Ferð heim á Krók í október - nema einhver eldfjöll eyðileggi allt.
Hvernig nemandi varstu? Ég vissi betur og fannst bráðnauðsynlegt að láta kennarana vita af því - ef þeim varð á að draga það í efa. Ég gekk einu sinni út úr prófi hjá Sigga Jóns af því mér fannst spurningarnar vitlausar. Mér fannst gaman í Gagganum og sakna enn rifrildanna við Atla Frey sem var vonlaus framsóknarmaður. Við rifumst frá kl. 8 á morgnana og hættum þegar við fórum heim. Ég var ægilega vinstrisinnuð, en það hefur lagast dálítið.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Að það leið næstum yfir aðstoðarkonurnar í Safnaðarheimilinu, þegar ég mætti í eldrauðri og skræpóttri Hawaiskyrtu, hanska-, blóma- og sálmabókarlaus. Ég hélt hinsvegar líka á glænýjum bróður mínum undir skírn - mér finnst það enn mjög merkilegt.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Frjáls og einráð.
Hvað hræðistu mest? Að það komi eitthvað fyrir fólkið mitt.
Besti ilmurinn? Gróðurilmurinn, þegar rignir í Suðurgötunni.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Stelpurokk með Todmobile - eða eitthvað með Síðan skein sól, U2 eða George.
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Maður getur ekki sungið, þegar maður er dauður - og það gerist ekki fyrr.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Enskum sakamálamyndum.
Besta bíómyndin? Hangover. Ég grenja af hlátri í hvert skipti sem ég sé opnunaratriðið, þegar gaurinn vaknar tannlaus og gleraugnalaus á gólfinu, með hænur á vappi, allt í rusli og tígrisdýri á klósettinu. Takk Björn Magnús!
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Dýllurum.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Á ekki að vera annað í blaðinu í þetta skiptið?
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Lasagne - það er besti matur í heimi.
Hættulegasta helgarnammið? 200 g af Siríus rjómasúkkulaði og 400 g af Appollólakkrís. Ég fer létt með að afgreiða öll grömmin á einu kvöldi og gef engum með mér.
Hvernig er eggið best? Í súkkulaðiköku.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Að þurfa alltaf að gera allt í einu - með tilheyrandi brussugangi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Dómharka og baktal.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Sá vægir sem vitið hefur minna. (Verð að segja það, annars verða Öddi, pabbi og bræður mínir voða sárir.)
Hver er elsta minningin sem þú átt? Lakkrískonfekt í rimlarúminu. Ég var u.þ.b. 1 árs og náði einhvern veginn í poka. Það var ægilega gott.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Gormdýrið úr Sval og Val. Algjör ruddi og skítsama - mjög flottir eiginleikar, sem er best að fela fyrir öðrum.
Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Ég væri til í að vera Brandon, sem stendur fyrir HONY (humansofnewyork.com) - hrein snilld sem sýnir að við erum öll eins - óháð þjóðerni, menningu og trúarbrögðum.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Englar alheimsins. Ég dáist að því hvernig Einar Már lýsir erfiðum geðrænum sjúkdómi svo manni finnst þetta allt saman ósköp eðlilegt og auðskiljanlegt.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? "Det er fandeme for dårligt." (Ekki dómharka, bara staðreynd.)
Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Anna Pála Guðmundsdóttir. Hún er pínu rosalega flott kona.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Einhver þúsund ár aftur í tímann - ég væri til í að hafa fundið upp hjólið. Það var ábyggilega góður dagur.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Þetta endar á Nöfunum.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Beina leið á Krókinn.
Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Neyðarblys, góða gönguskó og kareókívél - maður veit aldrei.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.