Rabb-a-babb 170: Freyr Rögnvalds
Nafn: Freyr Rögnvaldsson.
Árgangur: Hinn goðsagnakenndi ’78 árgangur.
Fjölskylduhagir: Er giftur Snærós Sindradóttur Bachmann, stjörnublaðamanni, verkefnastýru RÚV núll og yfirburða konu. Við búum svo með ómegðinni minni, Freyju Sigrúnu 13 ára, Erling Kára 9 ára, Urði Völu 4 ára og Tíbrá Myrru sem er hálfs árs.
Búseta: Bý í Vesturbæ Reykjavíkur.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Ég er sonur Rögnvaldar Ólafssonar og Sigrúnar Hrannar Þorsteinsdóttur, bænda í Flugumýrarhvammi í Blönduhlíð. Pabbi er fæddur og uppalinn í Flugumýrarhvammi, sonur Deddu, sem er þaðan líka, og Óla frá Ríp. Mamma er norðan af Akureyri, dóttir Steina og Tótu. Amma Tóta er frá Bústöðum í Austurdal en afi Steini er frá Gásum í Kræklingahlíð í Eyjafirði. Ég ólst upp á Akureyri til 9 ára aldurs en þá tóku pabbi og mamma við búi í Flugumýrarhvammi. Ég á svo fjögur systkini, öll yngri. Steinunn systir býr í Reykjavík, Sindri bróðir býr til osta í samlaginu, Þórunn systir er kominn inn í búreksturinn í Hvammi og Jórunn systir er í námi í Reykjavík.
Starf / nám: Síðasta rúman áratug hef ég starfað við blaðamennsku á ýmsum miðlum, þar á meðal 24 stundum, Bændablaðinu og Eyjunni. Í dag er ég blaðamaður á Stundinni. Ég er menntaður stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands en tók stúdentinn á Króknum. Þar reifst ég við Jón Hjartar í þrjú ár, drakk bjór með Birni Magnússyni, reykti með Geirlaugi heitnum og hló að Kela.
Hvað er í deiglunni: Aðallega jólin bara. Eftir því sem börnunum fjölgar verð ég alltaf meira og meira jólabarn og hlakka því óskaplega til þess þegar það varðar ekki lengur félagslegri útskúfun að fara að skreyta. Ætli það verði ekki svona um miðjan nóvember.
Hvernig nemandi varstu? Svörin við þessari spurningu yrðu sennilega eilítið mismunandi eftir því hver væri spurður. Ég held að ég hafi verið fínn nemandi, stóð fastur á mínu og lífgaði upp á þá skóla sem ég var í. Ég hugsa að eftirmælin sem ég fengi frá fyrrverandi kennurunum mínum í Akraskóla væru bara býsna góð. Hins vegar er ég ekki viss um að Páll Dagbjartsson hefði kvittað upp á að ég hefði alltaf verið alveg til friðs í Varmahlíð. Við heilsumst samt alveg kumpánlega í dag. Jón Hjartar hefði síðan ábyggilega ekki skrifað upp á nein meðmæli með mér þegar ég var í Fjölbraut á Króknum. Það var samt allt í lagi, mér samdi ágætlega við flesta aðra í starfsliðinu þar.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Þegar ég horfi til baka þá er það sennilega hversu afleit jakkafötin voru og hversu skelfilega klippingu ég hafði. Að öðru leyti var þetta prýðilegur dagur.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég ætlaði alltaf að verða bóndi. Svo elti ég konu, sem ekki hafði áhuga á búskap, suður til Reykjavíkur og fór aldrei á Hvanneyri eins og ég hafði ætlað. Ætli ég sé ekki bara ágætlega settur í því sem ég er að gera í dag.
Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ég dró á eftir mér gulan bangsa hvert sem ég fór þegar ég var smákrakki. Hann hét hinu virðulega nafni Guli bangsi, ekkert verið að flækja hlutina þar.
Besti ilmurinn? Ilmurinn af konunni minni. Lyktin af nýsleginni töðu. Og ilmurinn sem ég finn á köldum haustmorgni í göngum, efst á Seljárdal frammi á afrétt.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Alveg örugglega Iron Maiden, eins og alltaf. Hef líka verið að hlusta á The Doors og pottþétt Rage Against the Machine. Svo væntanlega Pearl Jam, Soundgarden, Alice in Chains og Foo Fighters. Ábyggilega líka The Prodigy. Af íslensku geri ég ráð fyrir að hafa verið að hlusta á Botnleðju og Maus á þessum tíma.
Hvernig slakarðu á? Ég slaka langbest á vestur í Bolungarvík en þar á tengdafjölskyldan mín hús. Allt gerist á helmingi minni hraða þar. Ég slaka hins vegar ekki mikið á þegar ég er norður í Skagafirði, hjá pabba og mömmu, því þá finnst mér ég alltaf þurfa að vera að gera eitthvað.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Urður Vala dóttir mín sér til þess að við missum ekki af teiknimyndunum um Letibjörn og læmingjana. Við horfum alltaf saman á þær.
Besta bíómyndin? The Doors. Töffaraskapurinn í Jim Morrison, frábærlega leiknum af Val Kilmer, var alveg ægilegt aðdráttarafl fyrir unglinginn á sínum tíma.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Aroni Einari Gunnarssyni. Svo Axel Kárasyni.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?Bý til kjötsúpu. Kjötsúpan mín er fullkomlega frábær.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Fyrrnefnd kjötsúpa. Annars er ég helvíti lúnkinn kokkur yfirleitt. Snærós mín sér hins vegar að mestu leyti um baksturinn, þó ég kunni svo sem ýmislegt fyrir mér þar.
Hættulegasta helgarnammið? Bjór.
Hvernig er eggið best? Spælt. Síðan linsoðið.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Þegar ég dett í neikvæðnina.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Rasismi, þröngsýni, kvenfyrirlitning og karlagrobb. Og óstundvísi, hún fer alveg agalega fyrir brjóstið á mér.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Þetta fer allt einhvern veginn, og aldrei verr en illa.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég held að það sé þegar við pabbi fórum upp í fjall heima, ég var svona þriggja ára, til að ná í tvo tamda hesta þaðan sem mér finnst eins og hafi átt að fara að járna fyrir göngur. Af einhverjum undarlegum ástæðum tók pabbi ekki með neina múla eða beisli heldur bara poka með brauði sem hann taldi að myndi duga til að koma þeim heim. Það gekk hins vegar alveg afleitlega og endaði að mig minnir með að pabbi batt vasaklútinn sinn upp í annan klárinn og þannig komum við þeim á endanum heim því hinn elti.
Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Che Guevara, 7. október 1967. Ég myndi koma mér burt af Yuro svæðinuí Bólivíu þar sem hann var tekinn höndum morguninn eftir, sem leiddi til að hann var drepinn 9. október.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ætli það sé ekki Býr Íslendingur hér?, ævisaga Leifs Muller sem Garðar Sverrisson skráði. Uppáhalds skáldin eru svo líklega Sigurður Pálsson, Sigfús Daðason, Kristján frá Djúpalæk, Jón úr Vör og Steinn Steinarr.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Eins og þar stendur.
Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Beyonce, Jay-Z og Snærós konunni minni, til að gleðja hana.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi fara aftur til áttunda áratugsins, til Bandaríkjanna, og fá að upplifa hippatímann þar.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Það er löngu ákveðið að hann verður Slagsmál, fyllerí, ríðingar.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Balí held ég bara.
Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Fara í stóru Suður-Ameríkuferðina með konunni minni, fara og sjá Leeds spila á Elland Road og koma börnunum mínum vel og fallega á legg og út í lífið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.