Tveir fiskréttir og Draumurinn hennar Dísu

Matgæðingarnir Ásdís og Jón Helgi. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Ásdís og Jón Helgi. Mynd úr einkasafni.

„Við erum ansi dugleg að skiptast á um eldamennskuna og frágang, þó frágangurinn sé ekki eitthvað sem slegist er um. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að við gleðjumst yfir góðum fisk eða fiskiréttum með ýmsum tilbrigðum. Við deilum með ykkur tveimur af okkar uppáhalds réttum sem við fengum fyrir ótrúlega mörgum árum og hafa frá þeirri stundu verið vinsælir hér á borðum,“ segja matgæðingar vikunnar í 5. tölublaði Feykis árið 2016 þau Ásdís Hrund Ármannsdóttir og Jón Helgi Pálsson á Hofsósi. 

„Fyrst er að nefna deig sem við veltum fiski upp úr og steikjum svo í olíu á pönnu. Við kryddum fiskinn örlítið með aromat áður en honum er velt upp úr deiginu en það er eflaust smekksatriði hvort þess er þörf.  Deigið fær skemmtilegan rauðan lit við steikingu.“

Réttur I
Spænskt fiskideig

5 góðar msk hveiti
1 tsk natron
1½ tsk túrmerik
½ tsk sítrónupipar
½ -1 tsk aromat
2 hvítlauksrif, pressuð
kalt vatn 

Aðferð: Þurrefni og hvítlauk blandað saman í skál og unnið saman með vatni þar til deig er örlítið þykkara en venjulegt orlydeig. Með þessari útgáfu af steiktum fiski er gott að hafa t.d. gróf hrísgrjón og ferskt salat. 

„Svo er það hinn rétturinn en hann nefnist bara alltaf Rauði rétturinn. Með honum höfum við einfaldlega gott snittubrauð eða hvítlauksbrauð.“ 

Réttur II
Rauði rétturinn 

3 ýsu eða þorskflök, meðalstór og roðlaus/beinlaus 

Aðferð: Kryddið örlítið með kryddi að eigin vali og veltið bitunum upp úr hveiti. Steikið mjög snöggt  á pönnu. Sett í eldfast mót og útbúið sósuna. 

Sósan:
½ l rjómi
2-4 msk tómatpúrra (pískað saman í skál með rjóma)
1 rauð paprika
2  hvítlauksrif
1 box sveppir
6-8 skinkusneiðar 
½ bréf pepperoni 

Aðferð: Þetta er allt skorið í litla bita og blandað saman við rjómasósuna. Helst eru það sveppirnir sem verða ágreiningsmál hjá yngra fólkinu og hefur lendingin verið að skera þá í 4 hluta, svo auðveldara sé að ýta þeim til hliðar. Þessu er því næst hellt yfir forsteikta fiskinn og rifnum osti dreift yfir. Sett í ofn við 180-200°C í u.þ.b. 20-30 mín.  

„Svo látum við eina hráköku fljóta með.“ 

Eftirréttur
Draumurinn hennar Dísu 

Botn:
1½ bolli döðlur
1 bolli kókosmjöl
1 góður bolli pecanhnetur
5 msk kakó
1-2 msk kókosolía (má sleppa) 

Aðferð: Allt sett í matvinnsluvél og síðan þjappað í mót. 

Toppurinn:
1 peli rjómi
200 g vanillu- eða jarðarberjaskyr 

Aðferð: Rjóminn þeyttur, skyrinu bætt út í rétt áður en rjóminn er klár. Jarðarber, hindber eða bláber skorin og dreift yfir.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir