Steinabollur og Raspterta
„Það verður að teljast heiður að vera boðið að vera með með þrátt fyrir að hafa ekki fasta búsetu í Skagafirði, svo að ekki varð skorast undan þegar Vala og Helgi báðu okkur að taka við og gefa lesendum einhverjar uppáhalds uppskriftir,“ sögðu matgæðingarnir í 16 tölublaði Feykis árið 2016, þau Árdís Kjartansdóttir og Hjörleifur Jóhannesson í Stekkjarbóli í Skagafirði.
„Fyrir valinu urðu tvær sem alltaf hitta í mark. Sú fyrri er hversdagsmatur, fljótlegur og auðveldur að búa til og alltaf vinsæll, ekki síst hjá unga fólkinu. Við köllum hann Steinabollur eftir Þorsteini Kristleifssyni vini okkar frá Húsafelli, sem hefur haft það á orði að hann kunni ekki að elda fyrir færri en tólf. Við höfum oft notið þess. Uppskriftin sem hér birtist er grunnuppskrift til aðlögunar eftir smekk hvers og eins.
Hin er gömul og góð, kemur frá nágrannakonu móðurömmu minnar heitinnar, en þær bjuggu báðar í fyrsta raðhúsinu sem byggt var á Akureyri og hefur alltaf verið kallað Langavitleysa. Sú kona hét Ída Magnúsdóttir. Kakan heitir Raspterta en ég kalla hana oft Íduköku. Þessi uppskrift er líklega um hundrað ára gömul en kakan er mjög einföld og sérlega ljúffeng.“
Aðalréttur
Steinabollur (eins og Steini gaf okkur uppskriftina)
2 hlutar svínahakk
1 hluti nautahakk
smávegis kjötfars
hafragrjón - meira en maður heldur
mjólk
egg
oregano
karrí
(varla neitt) salt
Aðferð:
Öllu hrært saman í hrærivél. Mótað í bollur og sett í smurt eldfast mót, bakað í ofni, þarf ekki að steikja fyrst. Spaghettisósa, úr tómötum, (ég kaupi oft Dolomio) hituð í potti og hellt yfir áður en bollurnar eru bornar fram. Gott er að hafa meira en nóg af sósunni því það fer ríflega af henni. Borið fram með soðnu spaghetti og salati (setja smá olíu í vatnið svo spaghettíið festist síður saman).
Eftirréttur
Raspterta
2 egg
2 dl sykur
3 dl ljóst brauðrasp (ekki þetta tvílita eins og PAXO)
1 tsk lyftiduft
60 g smjör eða smjörlíki, brætt
3½ msk mjólk
Aðferð:
Sykur og egg hrærð aðeins saman, restin af hráefnunum sett út í og hrært örlítið þar til þetta hefur blandast.
Eitt lausbotna mót u.þ.b. 24 sm smurt í hliðum og bökunarpappír settur í botninn (mjög mikilvægt því annars festist kakan við botninn). Bakað við 170°C gráður í 15-17 mínútur. Kakan kæld á rist.
Karamellukrem:
3dl rjómi
1½ dl sykur
3 tsk síróp (gamla góða Lyle´s í grænu dósunum)
Aðferð:
Soðið niður þar til sleifin myndar far í botninn. Þegar kremið hefur kólnað svolítið er 1 tsk vanilludropar og 45g kalt smjör sett útí og hrært. Hellt yfir kökuna og hún borðuð með bestu lyst.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.