Steiktur fiskur í karrý og fleira góðgæti

Matgæðingarnir Róbert og Þórlaug ásamt tveimur börnum sínum. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Róbert og Þórlaug ásamt tveimur börnum sínum. Mynd úr einkasafni.

„Róbert Kristjánsson og Þórlaug Svava Arnardóttir heitum við og búum við á Þórshamri á Skagaströnd. Við störfum bæði á Olís, Róbert sem verslunarstjóri og Þórlaug sem vaktstjóri. við eigum fjögur börn, Emblu, Kristján Örn, Rebekku Heiðu og Viktor, á aldrinum tveggja ára til tuttugu ára og eitt barnabarn, Ívar, sem er eins árs." sögðu matgæðingar 33. tölublaðs ársins 2013 en uppskriftirnar sögðu þau vera í lágkolvetna-lífstíl (LKL) þar sem þau fylgdu þeim lífstíl. 

Aðalréttur
Steiktur fiskur í karrý

800 g ýsuflök eða þorskur
raspur
2 dl sesamfræ
4 msk kókoshveiti ( ég nota dr.georg)
1 msk karrý
smá salt
smá sítrónupipar

Aðferð:
Blandað saman á disk. Tvö egg og smá rjómi hrært saman. Fiskinum dýft í rjómablönduna og velt upp úr raspinum. Síðan er þetta léttsteikt á pönnu upp úr smjöri og sett í ofnskúffu og rifnum osti dreift yfir fiskinn. Sett inn í 200 gráðu heitan ofn þar til osturinn hefur bráðnað.
Með þessu höfum við borið fram steikt grænmeti t.d. kúrbít,rauðlauk,papriku,sveppi og blómkálsmús.


Blómkálsmús

1 haus blómkál
½ rifinn piparostur
1 msk smjör
3 msk sýrður rjómi 18%
salt og pipar eftir smekk

Aðferð:
Blómkál soðið og maukað niður öllu hinu blandað saman við. Gott að nota töfrasprotann á þetta. Svo er voða gott að fá heimagerðan ís í eftirrétt.

Heimagerður ís
5 stk. eggjarauður
5 stk. eggjahvítur
5 msk sykur (ég nota erythritol sætuefni)
½ líter rjómi
2 tsk vanilludropar

Aðferð:
1. Eggjarauður og sykur þeytt vel saman.
2. Stífþeyta eggjahvítur.
3. Stífþeyta rjóma.
Eggjarauðuhrærunni og rjómanum er blandað saman með sleif. Síðan er stífþeyttum eggjahvítum blandað varlega saman við og að lokum má bæta við t.d söxuðu toblerone eða 70 % súkkulaði ef fólk vill.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir