Skyrtertan tilvalin fyrir tímanauma bændur
Matgæðingar vikunnar í 7. tölublaði Feykis árið 2016 voru bændurnir Guðrún Eik Skúladóttir og Óskar Már Jónsson á Tannstaðabakka í Hrútafirði sem buðu upp á Tex Mex hakkrétt í aðalrétt og skyrköku í eftirrétt. „Skyrtertan er tilvalin fyrir tímanauma bændur að útbúa og hakkrétturinn slær alltaf í gegn,“ segir Guðrún.
Aðalréttur
Tex Mex hakkréttur
500 g nautahakk
1 bolli hrísgrjón
½ laukur
½ paprika
sveppir
2 gulrætur
blómkál
spergilkál
blaðlaukur
pítsaostur
Sósa:
Mexíkóostur
⅓ askja rjómaostur
½ lítil dós salsasósa
rjómi
Aðferð:
Hrísgrjónin eru soðin og lögð í botninn á eldföstu móti. Hakkið er steikt á pönnu og kryddað eftir smekk (gott að nota t.d. taco krydd) og svo dreift yfir hrísgrjónin. Grænmetið er skorið niður, steikt á pönnu og dreift yfir hakkið. Mexíkóosturinn er rifinn niður og bræddur í rjómanum á pönnunni. Rjómaostinum og salsasósunni er bætt við og sósan látin malla þangað til mexíkóosturinn er allur bráðinn. Sósunni er þá hellt yfir eldfasta mótið og pitsaostinum dreift yfir. Best er að stilla ofninn á grill og baka réttinn í nokkrar mínútur, eða þar til osturinn er gullinbrúnn.
Eftirréttur
Einfalda skyrtertan hans Óskars
½ l rjómi
1 dós skyr að eigin vali
hafrakex
Aðferð:
Hafrakexið er mulið niður og dreift í botninn á formi. Rjóminn er þeyttur og skyrið svo hrært út í þeytta rjómann. Rjómaskyrinu er dreift yfir hafrakexið. Gott getur verið að toppa kökuna með sultu að eigin vali, en það er ekki nauðsynlegt. Geymist í kæli í nokkrar klst. áður en kakan er borin fram.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.