Ofnbakaðar ostastangir, einfalt fiskgratín og æðislegur eftirréttur
Matgæðingaþátturinn sem hér fylgir birtist i 23. tbl. Feykis árið 2013:
„Við hjónin, Rakel Runólfsdóttir og Kári Bragason, búum á Hvammstanga þar sem ég hef umsjón með framhaldsdeild FNV og Kári rekur eigið fyrirtæki Tvo smiði ehf. ásamt félaga sínum. Við eigum 4 börn, Karen Ástu 15 ára, Dag Smára 14 ára, Aron Óla 10 ára og Ara Karl 3 ára, segir Rakel sem ásamt eiginmanni sínum er matgæðingur vikunnar hjá Feyki.
„Fjölskyldan er nýkomin heim úr draumaferð til Orlando og það er margt fleira skemmtilegt á dagskránni í sumar, nokkur fótboltamót, ættarmót í Vestamannaeyjum, bústaðarferð í Vesturhópið, brúðkaup og heimsóknir á Siglufjörð. Svo er unglistahátíðin Eldur í Húnaþingi 24. - 27. júlí, virkilega skemmtileg bæjarhátíð sem er alltaf beðið með mikilli eftirvæntingu," segir Rakel, sem sendir okkur góðar uppskriftir fyrir sumarið.
Forréttur
Ofnbakaðar ostastangir
2-3 mozzarellakúlur (eða 1 stór mozzarellalengja)
1 bolli hveiti
2-3 egg, þeytt þar til þau byrja að freyða
1 bolli brauðrasp
1 tsk ítalskt krydd
Aðferð:
1. Skerið mozzarellaostinn í viðeigandi bitastærð og látið í frystinn í 15 mínútur.
2. Hitið ofninn í 200°c.
3. Hitið raspið á pönnu þar til það hefur fengið gylltan lit og bætið kryddinu út í.
4. Setjið hveitið, eggin og brauðraspið allt í sitt hvora skálina. Dýfið ostastöngunum fyrst í hveitið, síðan í eggin og loks í raspið. Endurtakið með því að dýfa í egg og rasp aftur, ef þið teljið þurfa. Raðið á bökunarpappír með smjörpappír.
5. Bakið í 8-10 mínútur. Fylgist vel með og passið að osturinn fari ekki að leka út um allt.
6. Berið fram strax með salsasósu að eigin vali.
Þessar ostastangir er tilvalið að gera nokkrum dögum áður en þeirra er notið. Frystið eftir að þið hafið húðað þær. Takið síðan úr frysti og látið í ofninn, en athugið að þær þurfa þá aðeins lengri tíma í ofninum.
Aðalréttur
Einfalt fiskgratín með sveppum
700 g þorskur eða ýsa
1 tsk + ½ tsk salt
250 g sveppir
2 msk bragðdauf olía
2 hvítlauksrif
2 dl rjómi
½ - 1 msk maizena
½ – 1 grænmetisteningur
1 dl rifinn ostur
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C. Saltið fiskinn með 1 tsk af salti og leggið hann i eldfast mót. Skerið sveppina í sneiðar og steikið í olíu í um 5 mínútur. Afhýðið og fínhakkið hvítlaukinn og steikið hann með sveppunum síðustu 2 mínúturnar. Kryddið með ½ tsk af salti og hellið rjóma saman við. Látið sjóða í 2 mínútur og bætið þá maizenasterkju í sósuna. Setjið grænmetiskraft út í og látið sjóða um stund. Hellið sveppasósunni yfir fiskinn, stráið rifnum osti yfir og bakið í miðjum ofni í um 20 mínútur.
Eftirréttur
Mjög fljótlegt fyrir ca 4.
1 peli rjómi
4 kókosbollur
súkkulaðikurl
Rjóminn er þeyttur og kókosbollur stappaðar saman við. Súkkulaðikurli bætt við, sett í form og fryst. Góður með ávöxtum eða heitri súkkulaðisósu
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.