Marokkóskur lambapottréttur og Súkkulaði-ávaxta-rjómi Birtu
Matgæðingar vikunnar í 14. tbl. Feykis árið 2016 voru þau María Ösp Ómarsdóttir og Jónas Þorvaldsson á Skagaströnd. Þau buðu upp á girnilegar uppskriftir af Marokkóskum lambapottrétti og Nan-brauði í aðalrétt og svokallaðan Súkkulaði-ávaxta-rjóma Birtu í eftirrétt.
Aðalréttur
Marokkóskur lambapottréttur og Nan-brauð fyrir 4-5
1½ msk smjör og 1½ msk ólívuolía blandað saman
2 laukar, skornir í litla bita
1-2 tsk túrmerik
1 tsk engifer
2 tsk kanill
1 kg lambakjöt (t.d. úrbeinað læri skorið í munnbita)
250 g mjúkar steinlausar döðlur, skornar í litla bita
1 msk hunang
salt og pipar
hnetur og fersk steinselja eftir smekk
Aðferð:
Smjörið og olían er hitað saman í stórum potti. Laukurinn svo settur út í og brúnaður. Næst er túrmerik, engifer og kanil hrært saman við. Þegar þetta hefur blandast vel er kjötið sett í pottinn og allt hrært saman, svo er vatn sett í út í þannig að það fljóti aðeins yfir kjötið. Suðan er látin koma upp og þá er lækkað undir og látið malla í einn og hálfan klukkutíma. (Tilvalið að henda í Nan-deig á meðan rétturinn mallar). Hunanginu og döðlunum er bætt í pottinn eftir einn og hálfan tíma og allt látið malla í hálftíma í viðbót. Þá mælum við með því að pipra vel og salta eftir smekk, við notum piparinn óspart á okkar heimili og þolir þessi réttur vel af honum. (Tilvalið að steikja Nan-brauðið á meðan rétturinn klárar að malla).
Það er mjög gott að rista nokkrar hnetur eða möndlur á pönnu og merja svo yfir réttinn þegar hann er kominn á diskinn og einnig smá ferska steinselju.
Borið fram með Nan-brauði, góðu fersku salati og couscous. Ef þið viljið bæta smá sætu og sterku við þá er um að gera að hafa slettu af sterku mango chutney á disknum.
Meðlæti
Nan-brauð, 6-8 brauð
6 dl hveiti
2 tsk lyftiduft
1 tsk salt
2 dl hrein eða grísk jógúrt
2 tsk ólívuolía
3-4 dl volgt vatn
hvítlaukssmjör og gróft salt eftir smekk
Aðferð:
Þurrefni eru hrærð saman í skál (hrærivél). Jógúrti, olíu og einum desilítra af vatni er blandað við og hrært áfram. Vatni bætt við þar til deigið helst saman án þess að það verði þó of blautt. Látið hrærivélina hnoða deigið í 2-3 mínútur. Skiptið deiginu svo í 6-8 jafnar kúlur og látið bíða undir hreinum klút þar til þið steikið brauðið.
Hitið pönnu á hæsta hita, fletjið kúlurnar út í þunnar kökur og skellið á pönnuna. Gott er að fylgjast vel með á meðan brauðið er steikt og passa að það brenni ekki á heitri pönnunni. Snúið við og steikið hina hliðina. Gott er að pensla brauðið með hvítlaukssmjöri og strá grófu salti yfir á meðan það er enn heitt. Best að bera það fram strax en einnig hægt að setja það á disk og hreinan klút yfir til að halda því heitu og mjúku.
Eftirréttur
Súkkulaði-ávaxta-rjómi Birtu
Bökuð súkkulaðikaka eftir smekk (t.d. brownie eða skúffukaka)
rjómi, þeyttur
jarðaberjagrautur
ber að eigin vali og heit súkkulaðisósa
Aðferð:
Bakið súkkulaðiköku, tilvalið er að nýta afganga (ef einhvern tímann er afgangur af köku), notið skeið og skóflið henni í eldfast mót. Rjómi er þeyttur og jarðaberjagraut hrært varlega saman við hann (eftir smekk). Skellið rjómanum svo í mótið með kökunni og hrærið varlega en vel saman. Ber eru svo sett ofan á og gott er að hafa heita súkkulaðisósu með.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.