Kjúklingabringur með ýmsu gúmmelaði og marengsbomba á eftir

Jón og Halla. Mynd úr einkasafni.
Jón og Halla. Mynd úr einkasafni.

„Okkur langar til að deila með ykkur uppskriftum sem sem vekja ávallt kátínu á okkar heimili,“ sögðu þau Halla Gísladóttir og Jón Guðmann Jakobsson frá Blönduósi sem voru sælkerar vikunnar í 17. tölublaði Feykis á því herrans ári 2015. 

Aðalréttur
Fylltar kjúklingabringur með beikoni, fetaosti, döðlum og furuhnetum (fyrir 4) 

4 stk kjúklingabringur
1 bréf beikon
1 krukka (150g) Dala fetaostur í kryddolíu
200 g döðlur, þurrkaðar
80 g furuhnetur 

Aðferð:
Byrjið á því að hita ofninn í 180°C. Skerið beikonið og döðlurnar smátt niður og setjið í skál. Blandið fetaostinum síðan saman við ásamt olíunni úr krukkunni. Brúnið furuhneturnar á pönnu en gætið þess að brenna þær ekki. Setjið hneturnar síðan saman við beikonið, döðlurnar og fetaostinn. 
Þá er komið að því að fylla bringurnar.
Stingið löngum hníf inn í bringuna og útbúið vasa án þess að gata bringuna. Fyllið síðan bringuna með fyllingunni en gætið að offylla ekki þannig að fyllingin flæði út um allt. Ef þið eruð vön að skera vasa í hliðina og loka svo með tannstönglum þá er það líka í lagi.
Setjið bringurnar í eldfast mót og inní ofn í 40 mín við 180°C. 

Meðlæti:
Borið fram með piparostasósu, ofnbökuðum kartöflum og salati.

Piparostasósa

1 piparostur
500 ml rjómi
1 msk rifsberjahlaup 

Aðferð:
Skerið piparostinn í litla bita og setjið í  pott ásamt rjómanum og rifsberjahlaupinu. Leyfið ostinum og risberjahlaupinu að bráðna við vægan hita og hrærið vel í sósunni á meðan. 

Ofnbakaðar kartöflur

1 stk stór sæt kartafla
10 stk meðalstórar kartöflur
3-4 msk ólífuolía
1-2 msk hvítlaukssalt
1-2 msk rósmarín krydd 

Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C. Skrælið kartöflurnar og skerið í teninga og setjið í eldfast mót. Setjið ólífuolíu, hvítlaukssalt og rósmarín yfir kartöfluteningana.  Bakið í ofni í 40 mínútur við 180°C.  Gott er að hræra í af og til.

 Eftirréttur

Marengsbomba

1 stk púðursykurmarengsbotn
2  stk Snickers súkkulaði
2 stk Mars súkkulaði
1/2 l rjómi
ferskir ávextir, t.d. vínber, jarðaber, bláber, kiwi og hunangsmelóna. 

Aðferð:
Marengsinn er mulinn niður í form, síðan er  rjóminn þeyttur og blandað saman við marengsinn. Brytjið súkkulaðið og ávextina niður og dreifið yfir. Gott er að hafa mikið af ávöxtunum. Setjið inn í ísskáp í smá stund áður en rétturinn er borinn fram. 

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir