Jólakalkúnn Eddu frænku, hvítkál og jólaísinn
„Við ætlum að deila með ykkur uppskriftinni af jólamatnum okkar. Við erum alltaf með fylltan kalkún á aðfangadag og finnst okkur þessi uppskrift vera mjög góð. Það er misjafnt hvað við höfum í forrétt, en það er alltaf eitthvert sjávarfang. Í eftirrétt höfum við heimatilbúinn jólaís sem er uppskrift sem Helga Möller deildi í vikunni fyrir áratug eða svo, við höfum aðeins aðlagað uppskriftina að okkur," sögðu matgæðingar vikunnar í 46. tölublaði ársins 2016, þau Hrefna Dögg Þorsteinsdóttir og Guðmundur Henry Stefánsson á Skagaströnd.
„Með kalkúninum gerum við fyllingu sem er mjög góð, heimalagað rauðkál, sætkartöflumús, salat og svo gerum við hvítkál sem Edda, móðursystir Hrefnu, gerði alltaf á meðan hún bjó á Íslandi og gaf okkur. Hún býr í Noregi núna þannig að við gerum hana núna eftir uppskrift frá Eddu. Upphaflega átti þessi uppskrift að vera til að nota með hangikjötinu á jóladag, en hún passar vel með kalkúninum líka,“ segja Hrefna og Guðmundur.
Kalkúnn og fylling
Við notum 4 – 5 kg kalkún
Ég byrja á því að sjóða ½ til 1 líter af vatni og set tvo kjúklingateninga út í til að búa til soð sem ég hef í botninum á fatinu sem ég elda fuglinn í. Fuglinn er ofan á grind þannig að hann liggur ekki í soðinu.
Svo hræri ég 250 g af íslensku smjöri saman við u.þ.b. ½ dós af kalkúnakryddi frá Pottagöldrum ásamt Maldon salti og svörtum pipar. Smjörið set ég bæði undir haminn á bringunum á fuglinum (passa að rífa haminn ekki) og svo smyr ég restinni utan á kalkúninn.
Í fyllinguna fara:
- 8 ristaðar fransbrauðsneiðar, skornar í teninga
- 1 bréf gott beikon
- 1 askja kastaníusveppir, skornir smátt
- 1 stór paprika, rauð, skorin smátt.
- 1 gulrót, skorin í litla teninga
- 1 rautt epli, hýðið skorið af og eplið í litla bita
- 1-2 brúnir laukar
- 2-3 hvítlauksrif eða ½ körfuhvítlaukur
- 1-2 dl rjómi
- 1 poki muldar möndlur
- rúmlega 1 dl Maple síróp
Beikonið steikt vel á pönnu og sett í skál með brauðteningunum. Laukarnir allir steiktir upp úr 100 – 150 g smjöri í u.þ.b. 10 mínútur, tekið af pönnunni og sett í skálina. Sveppir, paprika, gulrót, epli og möndlur steikt á pönnunni, sírópinu hellt saman við og þynnt út með rjómanum. Kryddað með kalkúnakryddinu og smakkað til með salti og pipar.
Ég set tæplega helminginn af fyllingunni inn í kalkúninn, passa að loka vel. Restina set ég í eldfast form og elda þegar kalkúninn er tilbúinn.
Kalkúnninn er settur inn í 105°C heitan ofn (ég er að setja hann inn um kl 11 um morguninn). Passa að snúa bringunni niður til að byrja með en sný honum við þegar um 2 klst. eru eftir af tímanum. Ég elda kalkúninn í rúml. klukkutíma á kílóið við þennan hita, en er alltaf með kjöthitamæli til að fylgjast með elduninni. Vökva hann með soðinu á 30 mínútna fresti. Sósan er gerð úr soðinu.
Hvítkálið hennar Eddu frænku
1 stór eða 2 litlir hvítkálshausar, skornir í fjóra parta og soðnir í soðinu af hangikjötinu (ég sýð hvoru tveggja á Þorláksmessu). Ég bæti 2 teningum af nautakrafti út í soðið og sýð þar til kálið er orðið mjúkt. Ég kreisti allan vökva úr kálinu í gegnum grisju og sýð kálið svo upp í 1-2 dl af rjóma og set nautakraft út í. Salta og krydda með hvítum pipar. Smakka til saltið og eins með rjómann, þetta á að vera svipað þykkt eins og kartöflu mús, þannig að það fer eftir því hve mikill vökvi er í hvítkálinu, hvað það þarf mikinn rjóma.
Jóla ísinn
- 6 eggjarauður
- 1 bolli púðursykur
- 1 stöng vanilla
- ½ líter rjómi
- 100 g Daim kurl
- ½ krukka góð karamellusósa
Þeyta eggjarauðurnar og púðursykurinn vel saman ásamt kornunum innan úr vanillustönginni.
Rjóminn þeyttur og blandað varlega saman við. Daimið sett út í og ísinn settur í form. Næst er sósan sett saman við ísinn en alls ekki að blanda henni vel saman við, bara reyna að dreifa henni vel, en samt þannig að hún sjáist í ísnum. Fryst.
Njótið vel.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.