Jólakalkúnn Eddu frænku, hvítkál og jólaísinn

Matgæðingarnir Hrefna og Guðmundur ásamt börnum sínum, þeim Sigríði Kristínu og Sæþóri Daða. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Hrefna og Guðmundur ásamt börnum sínum, þeim Sigríði Kristínu og Sæþóri Daða. Aðsend mynd.

„Við ætlum að deila með ykkur uppskriftinni af jólamatnum okkar. Við erum alltaf með fylltan kalkún á aðfangadag og finnst okkur þessi uppskrift vera mjög góð. Það er misjafnt hvað við höfum í forrétt, en það er alltaf eitthvert sjávarfang. Í eftirrétt höfum við heimatilbúinn jólaís sem er uppskrift sem Helga Möller deildi í vikunni fyrir áratug eða svo, við höfum aðeins aðlagað uppskriftina að okkur," sögðu matgæðingar vikunnar í 46. tölublaði ársins 2016, þau Hrefna Dögg Þorsteinsdóttir og Guðmundur Henry Stefánsson á Skagaströnd. 

„Með kalkúninum gerum við fyllingu sem er mjög góð, heimalagað rauðkál, sætkartöflumús, salat og svo gerum við hvítkál sem Edda, móðursystir Hrefnu, gerði alltaf á meðan hún bjó á Íslandi og gaf okkur. Hún býr í Noregi núna þannig að við gerum hana núna eftir uppskrift frá Eddu. Upphaflega átti þessi uppskrift að vera til að nota með hangikjötinu á jóladag, en hún passar vel með kalkúninum líka,“ segja Hrefna og Guðmundur.


Kalkúnn og fylling

Við notum 4 – 5 kg kalkún

Ég byrja á því að sjóða ½ til 1 líter af vatni og set tvo kjúklingateninga út í til að búa til soð sem ég hef í botninum á fatinu sem ég elda fuglinn í. Fuglinn er ofan á grind þannig að hann liggur ekki í soðinu.
Svo hræri ég 250 g af íslensku smjöri saman við u.þ.b. ½ dós af kalkúnakryddi frá Pottagöldrum ásamt Maldon salti og svörtum pipar. Smjörið set ég bæði undir haminn á bringunum á fuglinum (passa að rífa haminn ekki) og svo smyr ég restinni utan á kalkúninn.

Í fyllinguna fara:

  • 8 ristaðar fransbrauðsneiðar, skornar í teninga
    Kalkúnninn kominn á hátíðarborðið. Aðsend mynd.
  • 1 bréf gott beikon
  • 1 askja kastaníusveppir, skornir smátt
  • 1 stór paprika, rauð, skorin smátt.
  • 1 gulrót, skorin í litla teninga
  • 1 rautt epli, hýðið skorið af og eplið í litla bita
  • 1-2 brúnir laukar
  • 2-3 hvítlauksrif eða ½ körfuhvítlaukur
  • 1-2 dl rjómi
  • 1 poki muldar möndlur
  • rúmlega 1 dl Maple síróp

Beikonið steikt vel á pönnu og sett í skál með brauðteningunum. Laukarnir allir steiktir upp úr 100 – 150 g smjöri í u.þ.b. 10 mínútur, tekið af pönnunni og sett í skálina. Sveppir, paprika, gulrót, epli og möndlur steikt á pönnunni, sírópinu hellt saman við og þynnt út með rjómanum. Kryddað með kalkúnakryddinu og smakkað til með salti og pipar.
Ég set tæplega helminginn af fyllingunni inn í kalkúninn, passa að loka vel. Restina set ég í eldfast form og elda þegar kalkúninn er tilbúinn. 

Kalkúnninn er settur inn í 105°C heitan ofn (ég er að setja hann inn um kl 11 um morguninn). Passa að snúa bringunni niður til að byrja með en sný honum við þegar um 2 klst. eru eftir af tímanum. Ég elda kalkúninn í rúml. klukkutíma á kílóið við þennan hita, en er alltaf með kjöthitamæli til að fylgjast með elduninni. Vökva hann með soðinu á 30 mínútna fresti. Sósan er gerð úr soðinu. 

Hvítkálið hennar Eddu frænku 

1 stór eða 2 litlir hvítkálshausar, skornir í fjóra parta og soðnir í soðinu af hangikjötinu (ég sýð hvoru tveggja á Þorláksmessu). Ég bæti 2 teningum af nautakrafti út í soðið og sýð þar til kálið er orðið mjúkt. Ég kreisti allan vökva úr kálinu í gegnum grisju og sýð kálið svo upp í 1-2 dl af rjóma og set nautakraft út í. Salta og krydda með hvítum pipar. Smakka til saltið og eins með rjómann, þetta á að vera svipað þykkt eins og kartöflu mús, þannig að það fer eftir því hve mikill vökvi er í hvítkálinu, hvað það þarf mikinn rjóma. 

Jóla ísinn 

  • 6 eggjarauður
  • 1 bolli púðursykur
  • 1 stöng vanilla
  • ½ líter rjómi
  • 100 g Daim kurl
  • ½ krukka góð karamellusósa

Þeyta eggjarauðurnar og púðursykurinn vel saman ásamt kornunum innan úr vanillustönginni.
Rjóminn þeyttur og blandað varlega saman við. Daimið sett út í og ísinn settur í form. Næst er sósan sett saman við ísinn en alls ekki að blanda henni vel saman við, bara reyna að dreifa henni vel, en samt þannig að hún sjáist í ísnum. Fryst. 

Njótið vel.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir