Humarsúpa Mæju og Dóra og besta brauðið

Matgæðingarnir Helgi og Vala. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Helgi og Vala. Mynd úr einkasafni.

„Kristín og Eiríkur skoruðu á okkur Helga að birta hér uppskriftir. Þeir sem til okkar þekkja vita að í eldhúsinu er bara ein manneskja. Í einu. Einhver þarf að hafa ofan fyrir börnunum þremur sem eiga það til að hanga í fótleggjum foreldra sinna þegar þessi iðja er stunduð. Þegar Helgi lætur til sín taka í eldhúsinu eru hans meistaraverk makkarónugrautur, kanelsnúðar, lummur og vanillubúðingssúpa. Hann er ekki bara útlitið hann Helgi.....en að öðru,“ segir Vala Kristín Ófeigsdóttir en hún og Helgi Hrannar Traustason á Hofsósi voru matgæðingar vikunnar í 13. tbl. árið 2016. 

„Á okkar heimili er  ein uppskriftabók brúkuð meira en aðrar. Jólin 2000, þá þrettán ára gömul, fékk ég stílabók í jólagjöf frá vinkonu minni henni Wincie. Í bókina skrifaði hún: 

Hún er skáldkona vænsta hún Vala
sem ég veit að ber ei til mín kala
og feng' ég þá skvísu
að skrifa hér vísu
af og til - vær' hún rassgat í bala. 

Í þessa bók var skrifuð ein skitin vísa - svo uppskriftir. Ég er væntanlega meiri matarfíkill en ljóðskáld. Fyrst þegar ég fór að búa settist ég niður með mömmu og glósaði niður í ljóðabókina hvernig ætti að sjóða grjónagraut, kjötsúpu, saltkjöt og baunir og þessi helstu tromp sem alvöru húsmæður geta haft á hendi og slegið um sig með. Í bókina hafa síðan safnast gullmolar sem gott er að grípa til, og tveimur molum ætla ég að deila með ykkur kæru lesendur. Allt það hráefni sem þarf til matargerðarinnar fæst í KS Hofsósi (oftast). 

Uppskrift I
Besta brauðið 

Afar fljótlegt og bragðgott gerbrauð sem nota má við öll tækifæri í mismunandi útgáfum. Ég er ekki mikil þolinmæðismanneskja en þetta brauð er gaman að baka og klikkar aldrei. Ekki er þörf á nákvæmum mælingum eða annarri feimni við bakstur á þessu brauði. 

2½ dl volgt vatn
1 bréf af þurrgeri
1 tsk sykur
7½ dl hveiti, heilhveiti eða spelt
1 lúka haframjöl
1 lúka rifinn ostur
1 egg
dass af salti
salsa sósa, pestó, pizza sósa, sólþurrkaðir tómatar eða annað góðgæti, til að gefa bragð og lit
1 egg til penslunar
fræ, krydd og flögusalt til skreytingar. 

Aðferð:
Vatn, ger og sykur hrært saman og látið standa í 5-10 mínútur. Hveiti, haframjöl, ostur, egg, salt og t.d. salsasósa sett í hrærivélarskál og gerblöndu bætt við. Hnoðað saman með hnoðjárni. Ég hef tilhneigingu til að setja mikið af salsasósu og þá er um að gera að dúndra meira hveiti svo deigið sleppi skálinni. Látið hefa sig, hálftími er nóg - klukkutími mjög gott.  Mótað, penslað með egginu, skorið í deigið, fræjum, salti og kryddi stráð yfir. Bakað á 180°C á blæstri í 20-30 mínútur. 

Uppskrift II
Humarsúpa Mæju og Dóra
Einu sinni borðaði ég ekki humarsúpu. Svo buðu Mæja og Dóri á Molastöðum okkur í mat og fordómarnir hurfu eins og dögg fyrir sólu. Síðan þá hefur súpan tekið smávægilegum breytingum en í grunninn er hún ættuð úr Fljótunum. 

300 g humar
250 g rækjur
2 sveppir (má sleppa)
3 msk smjör
3 msk hveiti
8 dl fiskisoð
2 dl rjómi
salt, pipar, estragon, hvítlaukur, cummin, karrí, hvítvín/koníak og Bong humarkraftur eftir smekk. 

Aðferð:
Best er að gera fiskisoðið úr humarskeljunum að viðbættu grænmeti, s.s. lauk, gulrótum, hvítvíni, sellerí og fleira fínerí. Þetta puð er líka alveg óþarft og kann Knorr að gera ljómandi fiskisoð. Þegar soðið er klárt er smjörbollan gerð og soðinu hellt varlega saman við. Sveppirnir skornir smátt, rjómanum bætt saman við. Soðið saman, smakkað til og dúllað við eins lengi og tími gefst til. Rækjur og humar sett saman við rétt áður en borið er fram. Skreytt með þeyttum rjóma og ferskri steinselju. 

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir