Humar, tómatsúpa og frönsk súkkulaðikaka
Matgæðingar vikunnar í 9. tbl. ársins 2016 voru Hrönn Dís Ástþórsdóttir og Ævar Baldvinsson. Hrönn starfar á leikskólanum Barnabóli og Ævar er eigandi fyrirtækisins Dimension of Sound. Þau hafa verið búsett á Skagaströnd í tvö ár.
„Við völdum þessar uppskriftir því okkur þykir þær góðar og er gaman að matreiða þær. vonum að þið getið notið þeirra með okkur.“
Forréttur
Ofnbakaður humar 6með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri
Hvítlaukssmjör:
1 rauður chilipipar, fræhreinsaður
1 búnt steinselja
2-3 heilir hvítlaukar, afhýddir , gott að nota solo-hvílaukana sem koma í heilu
500 g smjör, við stofuhita
1 msk maldonsalt
reykt paprikuduft á hnífsoddisvartur pipar úr kvörn
Allt sett saman í matvinnsluvél.
Humar:
2 kg humar, helst stór eða millistór
hvítlaukssmjör (sjá uppskrift ofar)
1½ dl hvítvín
1½ dl rjómi
maldonsalt
svartur pipar úr kvörn
Aðferð:
Humar sem á að bera fram um kvöldmataleytið er gott að taka úr frysti upp úr hádegi og vinna hann hálffrosinn upp úr köldu vatni. Hann þiðnar fljótt og það er ekki gott að hafa hann þiðinn alltof lengi, þá dökknar hann.
Humarinn klipptur upp eftir bakinu, svarta röndin hreinsuð úr honum undir köldu rennandi vatni, hann síðan þerraður með viskustykki og kjötið lagt upp á bakið (hann á samt að hanga fastur á halaendanum). Hvítlaukssmjöri makað á humarinn, ekki spara það! Humrinum raðað í eldfast mót, rjóma og hvítvíni hellt yfir. Grillað í ofni við 225°C í u.þ.b. 3-4 mínútur. Þegar humarinn er tekinn úr ofninum hefur dálítið af smjörinu bráðnað ofan í hvítvínið og rjómann og myndað ljúffenga sósu. Humarinn borinn fram á disk og sósunni hellt yfir. Nauðsynlegt er að bera fram brauð eða hvítlauksbrauð með humrinum til þess að dýfa ofan í sósuna.
Aðalréttur
Tómatsúpa með tortellini og spínati
1 msk ólífuolía
2 sellerístangir
2 gulrætur
1 stór laukur
1 msk tómatpuré
2 tsk hrásykur
3 dósir hakkaðir tómatar (ég notaði Hunts með oregano, basil og hvítlauk)
1 l vatn eða tæplega 3 tómatadósir (tómatadósirnar skolaðar að innan með vatninu)
2 grænmetisteningar
1 tsk þurrkað basil
200 g tortellini pasta150 gr ferskt spínat
4 msk 36% sýrður rjómi
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
Aðferð:
Skerið sellerí, gulrætur og lauk smátt. Hitið olíu í stórum potti og steikið grænmetið þar það er mjúkt. Setjið tómatpuré út í og steikið aðeins áfram. Bætið sykrinum saman við. Hellið tómötunum ásamt vatninu og kraftinum yfir og hleypið suðunni upp. Kryddið með basil, salti og pipar ef þarf. Smakkið ykkur til. Hellið þá pastanu út í sjóðandi súpuna og látið sjóða í 20 mínútur undir loki. Saxið spínatið smátt og bætið út í ásamt sýrða rjómanum og berið fram með kotasælubollunum.
Kotasælubollur:
5 dl gróft spelt
3 tsk vínsteinslyftiduft
1 lítil dós kotasæla (u.þ.b 2 dl)
1 dl ab mjólk
2-2½ dl sjóðandi heitt vatn (setjið fyrst 1-2 dl og sjáið svo hvort það þurfi meira vatn þar sem mjöl tekur misvel við vökva)
1 msk ólífuolía
1 tsk sjávarsalt
1 dl sesamfræ
Aðferð:
Ofn hitaður í 180°C með blæstri. Öllu blandað saman í skál og hrært með sleif þar til rétt blandað saman. Gott getur verið að bæta vatninu smám saman við en ekki öllu í einu. Áferðin á deiginu á að vera eins og þykkur hafragrautur og klístrast við sleifina. Alls ekki hræra lengi.
Búið til 9 stærri eða 12 minni bollur með tveimur matskeiðum og setjið á pappírsklædda bökunarplötu. Ca 1 tsk af sesamfræjum stráð yfir hverja bollu. Þær stækka ekki það mikið að 12 bollur eiga vel að komast fyrir á einni plötu. Bakað í 20 mínútur.
Eftirréttur
Frönsk súkkulaðikaka með berjum og léttþeyttum rjóma
200 g smjör
200 g 70% dökkt súkkulaði
4 stk egg
1 dl duftuð Stevia
1 tsk vanilludroparrjómi
bláber, jarðarber eða hindber
Aðferð:
Stillið ofninn á 200°C. Bræðið smjörið og súkkulaðið í potti á lægsta hita. Þeytið eggin og steviuna saman þar til létt og ljóst. Bætið vanilludropum saman við. Hellið smjörsúkkulaðiblöndunni saman við. Hrærið og hellið deiginu í kökuform. Notið lausbotna kökuform eða silkonform sem er 24 sm í þvermál. Bakið í 6-8 mínútur. Látið kökuna kólna og geymið í kæli í góða stund. Annars er ekki gott að skera hana.
Berið fram með léttþeyttum rjóma og ferskum berjum.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.