Bláberjaís á fimm mínútum

Matgæðingarnir Pétur og Bjarney.
Matgæðingarnir Pétur og Bjarney.

„Við erum hjónin Pétur Hafsteinn Sigurvaldason frá Litlu-Ásgeirsá í Víðidal og Bjarney Alda Benediktsdóttir frá Neðri-Torfustöðum í Miðfirði. Við búum að Neðri-Torfustöðum ásamt börnum okkar. Þau eru Ármann, Kristrún og María. Bústofninn á bænum er blandaður; kýr, kindur og nokkur hross. Ekki má gleyma að nefna tíkina okkar Millu, örustu hjálparhellu norðan Alpafjalla," sögðu hjónin Pétur og Bjarney, sem voru matgæðingar vikunnar í 29. tbl. Feykis árið 2013.

„Sumarið er tími uppskeru. Því er ekki úr vegi að uppskriftirnar innihaldi að einhverju leyti eitthvað af öllu því góða hráefni sem náttúran og gróðurhús landsins hafa uppá að bjóða. Við deilum því með ykkur þremur uppskriftum, með þetta í huga. Ferskt salat sem endalaust er hægt að breyta, allt eftir smekk eða því hvað til er í ísskápnum hverju sinni. Gratín sem passar vel með öllum mat, ekki síst grilluðum og að lokum hvernig töfra má fram yndislegan bláberjaís á aðeins 5 mínútum."

Rækjusalat með eplum og ananas

½ haus jöklasalat
½ gúrka
2 græn epli
1 rauð paprika
¼ ferskur ananas
¼ blaðlaukur
½ poki klettasalat
300 g stórar rækjur
1½ dós sýrður rjómi
½ sítróna
salt og nýmalaður pipar
1 dl ferskar kryddjurtir, eftir smekk (smátt saxaðar)

Aðferð:
Rífið niður salatið, fræhreinsið epli, papriku og skerið í bita ásamt gúrku og ananas. Saxið blaðlauk. Raðið fallega ofan á salatið og hafið rækjurnar efstar.
Hrærið saman sýrða rjómanum, sítrónusafa, kryddjurtum, salti og pipar. Gott að byrja á að hræra saman dressinguna og láta bíða í ísskáp þar til salatið er borið fram. 

Kartöflugratín með spergilkáli

½ kg kartöflur
½ haus spergilkál
1 stk laukur
1 rif hvítlaukur
1½ dl rjómi
1½ dl mjólk
salt og nýmalaður pipar
u.þ.b. 150 g rifinn ostur

Aðferð:
Penslið hæfilega stórt eldfast mót. Skerið kartöflur í sneiðar og spergilkál skorið fremur smátt. Forsjóðið í saltvatni þar til það verður tæplega meyrt. Laukur saxaður. Setjið kartöflur, spergilkál og lauk í mótið. Blandið saman rjóma, mjólk, pressuðum hvítlauk, salti og pipar og hellið yfir. Dreifið rifna ostinum yfir og bakið í 180° heitum ofni í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til gratínið hefur fengið fallega gullinn lit. (Hér má líka rífa niður piparost og bræða í rjómablandinu sem hellt er yfir og sleppa þá salti og pipar)

Bláberjaís

400 g frosin bláber
200 ml rjómi
1 stk egg
10 dropar stevía

Aðferð:
Setjið bláberin í matvinnsluvél og látið vélina snúast í nokkrar sekúndur. Bætið síðan út í rjóma, eggi og stevíu. Unnið saman þar til blandan hefur fengið þykka og fallega áferð.

Verði ykkur að góðu !

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir