Að elda handahófskennt
„Oft er gott að prófa sig áfram með eitthvað nýtt án þess að fylgja uppskrift, og er svoleiðis tilraunamennska oft stunduð hér á bæ. Svoleiðis tilraunamennska er einnig mjög hentug til þess að nýta afganga og mat sem er á síðasta snúning, eða á það til að gleymast aftast inn í ísskáp. Hafa skal þó í huga að sumar tilraunir mistakast og maður þarf að sætta sig við það að ágætis hluti afrakstursins getur orðið frekar ósmekklegur,“ sögðu Jóhannes G. Þorsteinsson og Arnfríður Hanna Hreinsdóttir á Kollafossi í Miðfirði en þau voru matgæðingar 15. tölublaðs Feykis 2016.
„Gott er því að stunda svona skemmtilegheit með rétti sem fara ekki til spillis þó eitthvað mistakist. Eins og til dæmis vefjur, þar sem hægt er að hafa margt mismunandi í boði til að skella í þær.
Áttu til popp? Jafnvel frá kvöldinu áður? Settu það í matvinnsluvélina og eitthvað annað skemmtilegt með. Kiwi? Avocado? Eitthvað sem þú myndir ekki venjulega setja saman. Smakkast það ekki nógu vel? Taktu eitthvað annað handahófskennt og bættu út í. Einhver skemmtileg krydd. Endurtaktu þangað til þetta smakkast annaðhvort óhóflega vel, eða ásættanlega. Ef þetta smakkast óhóflega vel, til hamingju, þú ert komin/n með nýja uppskrift. Smakkast þetta ásættanlega? Vel gert, þú getur sett þetta á listann þinn fyrir áframhaldandi tilraunastarfsemi. Óætt? Þá væri best að strika þessa áhugaverðu samblöndu hráefna af listanum þínum. Það skemmtilegasta er, að svona réttir bragðast sjaldnast nákvæmlega eins þegar maður reynir að endurskapa þá síðar.“
Réttur I
Grænmetissúpa
Þessi súpa breytir um lit eftir því hvaða grænmeti er til í ísskápnum hverju sinni og í hvaða hlutföllum það er, en bragðið er þó oftast á svipuðum nótum. Það má nota blöndu af fersku og frosnu grænmeti.
1 dós kókosmjólk
2-3 bollar grænmetiskraftur
2-3 msk kókosolía
Eftirfarandi grænmeti endar oftast í súpunni: Laukur, hvítlaukur, sæt kartafla, gulrófa, spínat, gulrætur.
Stöku sinnum: Grænkál, blómkál, brokkolí, sellerý, kartöflur.
Aðferð:
Skerið grænmetið fremur gróft og steikið í kókosolíunni við miðlungshita. Þegar það er farið að mýkjast er kókosmjólkinni hrært út í. Grænmetisteningarnir eru leystir upp í heitu vatni og bætt saman við. Ef frosið grænmeti er notað, þá er því einnig bætt út í og súpan síðan látin malla við vægan hita í a.m.k. 20 mínútur, eða þar til grænmetið er orðið mjög mjúkt. Súpunni er skellt í blandara eða matvinnsluvél og maukuð í örfáar sekúndur, eða eftir smekk. Ef súpan þykir of þykk, þá má bæta vatni út í.
Eftirréttur
Döðlukaka
Þessa uppskrift rákumst við á upprunalega á síðunni www.nordicfoodliving.com og heppnast hún alltaf svo vel að hér er hún í nánast óbreyttri mynd. Í kökunni er hvorki viðbættur sykur né hveiti (þó flestir sem hafa smakkað hana eigi erfitt með að trúa því).
100 g dökkt súkkulaði
150 g döðlur
200 g hnetur/möndlur (t.d. cashew hnetur, heslihnetur og möndlur)
2 bananar
2 egg
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
1 tsk vanilluduft (má sleppa)
Aðferð:
Saxið súkkulaðið og 50 g af hnetunum. Malið restina af hnetunum í matvinnsluvél þar til blandan er orðin að mjöli. Hrærið mjölinu saman við saxaða súkkulaðið og hneturnar í stórri skál. Blandið lyftidufti og salti saman við. Setjið banana, döðlur, egg og vanillu (ef notuð) í matvinnsluvél og blandið þar til áferðin er orðin mjúk og allt vel blandað saman. Setjið blönduna út í stóru skálina og hrærið öllu vel saman. Bakað í 20-25 cm hringlaga formi (eða eldföstu móti) við 180°C í u.þ.b. 25 mínútur.
Berið kökuna fram volga með þeyttum rjóma eða ís. Kakan er einnig góð köld.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.