VSOT í Bifröst í kvöld
Hinir margrómuðu VSOT tónleikar verða haldnir i Bifröst í kvöld og samkvæmt síðustu fréttum hefjast þeir klukkan 20. Að sögn Þórólfs Stefánssonar, eins skipuleggjanda tónleikanna, verður þetta hátíð gleðinnar, kærleikans og vináttu og ekki síst hátíð listamanna sem eru búsettir á Krók eða af Króknum.
„Eins og margir þekkja til eru heimamenn og brottfluttir að vinna saman og skapa menningu. Þetta hefur alltaf heppnast mjög vel og ég vil halda því fram að sjálft húsið eigi sinn þátt í því, menningarhúsið og félagsheimilið Bifröst. Það er einhver viss andi í húsinu sem gerir það,“ segir Þórólfur.
Nú eru liðin 10 ár síðan fyrstu tónleikarnir voru haldnir en Þórólfur segir að tvisvar hafi komið fyrir að þeir hafi fallið niður svo litið er á að um 10 ára starfsemi sé að ræða.
Heyrst hefur að aðkomumenn komi og spili sem ekki hafi beina tengingu við Skagafjörð og Þórólfur hefur skýringu á því. „Við lentum í rosalegu veseni, fundum enga trommuleikara, fólk var ekki tilbúið eða svöruðu ekki skilaboðum. Svo það var farið í að redda því en þeir sem koma eru Halldór G. Hauksson eða Halli Gulli og Lárus Halldór Grímsson.“
Þórólfur segir Halla Gulla ættaðan úr Fljótum svo það sé spurning hvort kalla ætti hann aðkomumann en hann hefur m.a. spilað með stórsveitum á borð við Stjórninni og í sýningunni Danslagakeppnin á Króknum 60 ára. „Hinn er Lárus Halldór Grímsson sem m.a. lék í hljómsveitinni Eik, hámenntaður tónlistarmaður og ekkert nema elskulegheitin. Hann er tengdur hingað í fjörðinn í gegnum Hermann Sæmundsson. Og það var Hermann sem ýtti honum í fangið á okkur og við létum það gerast. Við bjóðum þessa menn velkomna og vonum að þeir verði ekki fyrir aðkasti heimamanna,“ segir Þórólfur og hlær.
En við hverju má fólk búast í kvöld?
„Fólk má búast við tárum, hlátri, gleði, hamingju og jafnvel barneignum,“ svarar Þórólfur og brosir breitt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.