Veðurklúbburinn á Dalbæ spáir stuttum hvelli
Þriðjudaginn 1. mars 2016 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar. Fundurinn hófst kl. 13:55. Fundarmenn voru 13 talsins. Fundinum lauk kl. 14:20.
Fundarmenn voru ágætlega sáttir við hvernig síðasta spá gekk eftir. Nýtt tungl kviknar miðvikudaginn 9. mars í norðvestri kl. 01:54. Næsta dag verður tungl næst jörðu og því stórstreymt. Ekki þarf að hafa sérstaka aðgát vegna þess, þar sem vindur verður lítill á þeim tíma.
Veður í marsmánuði verður umhleypingasamt. Búast má við hvelli fyrrihluta mánaðarins, en hann stendur þó stutt yfir. Áttir verða breytilegar og hitastig sveiflukennt.
Veðurvísa mánaðarins
Febrúar á fannir,
þá læðist geislinn lágt
Í mars blæs oft biturt,
en birtir smátt og smátt.
Með góðri kveðju, Veðurklúbburinn á Dalbæ
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.