Vanda sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu
Forseti Íslands sæmdi í gær, þann 1. janúar 2021, fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Á meðal þessara fjórtán var Skagfirðingurinn Vanda Sigurgeirsdóttir leiktor og fyrrverandi knattspyrnumaður, nú búsett í Reykjavík.
Vanda var sæmd fálkaorðunni fyrir framlag til knattspyrnu kvenna og baráttu gegn einelti. Feykir óskar Vöndu hjartanlega til hamingju með heiðurinn.
Í viðtali við Vöndu í Feyki nú fyrr í vetur, sem tekið var í tilefni þess að kvennalið Tindastóls tryggði sér sæti í efstu deild, sagði í inngangi: „Það er kristaltært að fyrsta fótboltastelpan á Króknum var Vanda Sigurgeirsdóttir, fædd 1965. Hún var lengi eina stelpan sem fékkst í tuðruspark og ferill hennar í boltanum var bæði langur og farsæll. Hún lék sér að sjálfsögðu í fótbolta með strákunum á Króknum en komst loks í tæri við kvennaknattspyrnuna þegar hún fór í framhaldsskóla á Akureyri og spilaði síðan fyrir lið KA, ÍA, Breiðablik, KR og loks Tindastól.
Hún lék einnig 37 leiki með íslenska landsliðinu og var fyrirliði liðsins í 28 skipti. Hún var þjálfari Breiðablik árin 1994-1996 en þá tók hún við sem þjálfari íslenska landsliðsins. Sumarið 2001 þjálfaði hún fyrst kvenna á Íslandi karlalið en það var lið Neista á Hofsósi. Síðan hefur hún þjálfað kvennalið KR, Breiðablik og Þrótt Reykjavík. Hún bjó á Króknum nokkur ár upp úr síðustu aldamótum og þjálfaði þá 4. flokk stúlkna hjá Tindastóli sumarið 2005, 3. flokk 2006 og loks mfl. Tindastóls sumarið 2007. Auk þess að spila með íslenska landsliðinu í knattspyrnu var Vanda reyndar einnig í handboltalandsliðinu um tíma.“
Vanda hefur staðið í stafni baráttunnar gegn einelti og hlaut til að mynda hvatningarverðlaun Dags gegn einelti fyrir rúmu ári eins og lesa má um í Feyki.
Aðrir þeir sem sæmdir voru íslensku fálkaorðunni í gær voru: Bernd Ogrodnik brúðumeistari, Björn Þór Ólafsson fyrrum íþróttakennari á Ólafsfirði, Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur, Halldór Benóný Nellet skipherra, Helga Sif Friðjónsdóttir geðhjúkrunarfræðingur, Helgi Ólafsson rafvirkjameistari á Raufarhöfn, Hrafnhildur Ragnarsdóttir fyrrverandi prófessor, Jón Atli Benediktsson rektor HÍ, Pétur H. Ármannsson arkitekt, Pétur Guðfinnsson fyrrverandi útvarpsstjóri, Sigrún Árnadóttir þýðandi, Sigrún Edda Björnsdóttir leikkona og Vilborg Ingólfsdóttir hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.