Tónadans heldur jólatónleika á morgun
Jólatónleikar listasmiðjunnar Tónadans verða haldnir í Miðgarði á morgun, miðvikudaginn 6. desember kl. 17:00.
Tónadans, listasmiðja fyrir börn og ungmenni, var formlega stofnuð á vordögum 2017 en tók til starfa síðastliðið haust og er afrakstur hugmynda og þróunarvinnu Kristínar Höllu Bergsdóttur og Jóhönnu Marínar Óskarsdóttur. Hafði listasmiðjan verið draumur þeirra um nokkra hríð og ákváðu þær að skella verkefninu af stað á þessu ári. Báðar eru þær menntaðir hljóðfæraleikarar og tónlistarkennarar auk þess að vera við nám við Háskólann á Bifröst. Kristín Halla hefur séð um reksturinn í vetur þar sem Jóhanna er búsett á Bifröst en Kristín Halla segist hafa fengið til liðs við sig frábærar listakonur þær Helgu Rós Indriðadóttur óperusöngkonu sem stjórnar barnakórnum og þær Ólöfu Ólafsdóttur og Ragndísi Hilmarsdóttur danskennara sem kenna jassballett.
Óhætt er að segja að Tónadans hafi verið góð viðbót við það tónlistar- og danslíf sem nú þegar er til staðar í firðinum m.a. með því að bjóða upp á greinar sem ekki hafa staðið til boða í hinu almenna tónlistar-, dans- eða öðru listanámi héraðsins.
Tónadans hefur haft aðalbækistöðvar sínar í Varmahlíð. Þar hefur kórastarf, tónadansnámskeið, samspil, bjöllukór og fleira verið kennt en einn dag í viku hefur verið kennt í Ljósheimum. Kórastarfið fer allt fram í Varmahlíð en börn úr öllum Skagafirði eru hjartanlega velkomin í kórinn.
Nemendur á haustönn voru um 60 og stunduðu nám á hinum ýmsu námskeiðum. Kristín Halla vill koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa tekið svo vel á móti Tónadansi.
Á tónleikunum á miðvikudaginn koma fram Barnakór, Krúttakór, Bjöllukór og Strengjahópur Tónadans auk Norðlenskra strengja.
Allir eru hjartanlega velkomnir og aðgangur er ókeypis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.