Tölvuleikjamiðstöðin Kollafossi heimsótt í þriðja þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla

Arnfríður Hanna Hreinsdóttir og Jóhannes Gunnar Þorsteinsson eru heimsótt að Kollafossi í Miðfirði þar sem þau reka Tölvuleikjamiðstöð. Ljósm./BÞ
Arnfríður Hanna Hreinsdóttir og Jóhannes Gunnar Þorsteinsson eru heimsótt að Kollafossi í Miðfirði þar sem þau reka Tölvuleikjamiðstöð. Ljósm./BÞ

Í þriðja þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla heimsækjum við Jóhannes Gunnar Þorsteinsson tölvuleikja- og hljóðhönnuð og sambýliskonu hans, Arnfríði Hönnu Hreinsdóttur, á Kollafossi í Miðfirði. Í Kollafossi reka þau leikjamiðstöð, þar sem þau bjóða öðrum tölvuleikjahönnuðum í sveitasæluna, svo þeir geti einbeitt sér að vinnu sinni í friði og ró.

Þar að auki stendur parið fyrir leikjadjammi (e. game jam), þar sem hópur tölvuleikjahönnuða víðs vegar að úr heiminum kemur saman til að gera tölvuleik á afmörkuðum tíma. Leikjadjömmin hafa slegið í gegn og talsvert færri komist að en vilja. Í þættinum kynnumst við Jóhannesi og Arnfríði og hvernig þau blanda saman þessum ólíkum heimum tækninnar og  sveitalífsins.

Sem fyrr segir er þetta annar þátturinn af sex, þar sem fyrirtæki heimsótt og farið er yfir starfsemina, allt frá hugmynd til viðskiptatækifæris. Í lokaþættinum koma viðmælendur allra sex fyrirtækjanna saman, ásamt þriggja manna ráðgjafanefnd, og ræða um frumkvöðlastarf.

Fyrirmyndarfrumkvöðlar er samstarfsverkefni Feykis og Skottu kvikmyndafjelags. Þáttagerðin er í höndum Árna Gunnarsson kvikmyndagerðarmanns, Berglindar Þorsteinsdóttur, ritstjóra Feykis og Kristínar Einarsdóttur, blaðamanns hjá Feyki. Þáttastjórnendur eru Berglind og Kristín en um upptökur og eftirvinnslu sér Árni Gunnarsson.

Í fyrsta þætti voru Ásdís Sigurjónsdóttir, Einar E. Einarsson og Sólborg Una Pálsdóttir á Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Þau standa að framleiðslu smyrsla og leðurfeiti úr minkafitu undir vörumerkinu Gandur.

 

Í öðrum þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla fengum við að kynnast Lilju Gunnlaugsdóttur, sem rekur handverksfyrirtækið Skrautmen, og líta inn í vinnustofu hennar að Áshildarholti í Skagafirði.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir