Þjóðleikur í Miðgarði og Varmahlíðarskóla
Á morgun, laugardag, verður Þjóðleikur, risastór leikslistarhátíð ungs fóks, haldin í Menningarhúsinu Miðgarði og í Varmahlíðarskóla.
Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem haldin er annað hvert ár á landsbyggðinni. Það er Þjóðleikhúsið sem hefur frumkvæði að verkefninu í samstarfi við menningarráð, skóla, leikfélög og marga aðra aðila. Þjóðleikur hóf göngu sína á Austurlandi árið 2008-2009 en starfar nú um allt land.
Verkefnið felst í því að viðurkennd leikskáld eru fengin til að skrifa verk fyrir 13-20 ára leikara og eru þau svo sett upp á hinum ýmsu stöðum á landinu. Leikstjórar hópanna, oft á tíðum kennarar og áhugaleikarar, fá tilsögn hjá fagfólki úr Þjóðleikhúsinu á æfingaferlinu og að auki er boðið upp á tækninámskeið í heimabyggð. Að vori fer svo fram lokahátíð i hverjum landshluta, þar sem allar sýningarnar eru sýndar. Að þessu sinni er lokahátíðin fyrir Norðurland og Vestfirði haldin í Varmahlíð; í Miðgarði og Varmahlíðarskóla, og hefst hún klukkan 12 á hádegi með skrúðgöngu og opnunarhátíð.
Á hátíðinni munu fjórir leikhópar sýna þrjú leikrit. Eru það hópar frá Árskóla og Ísafirði sem sýna leikritið Morð! eftir Ævar Þór Benediktsson, hópur frá Grunnskólanum á Ísafirði sýnir leikritið Feita mamman eftir Auði Jónsdóttur og loks sýnir leikhópur Varmahlíðarskóla leikritið Loddararnir eftir Snæbjörn Brynjarsson. Hver leikhópur sýnir tvisvar og hefst fyrsta sýningin kl. 13:00 og sú síðasta kl. 18:30. Hægt er að kaupa Þjóðleiksarmband í Miðgarði sem gildir sem aðgöngumiði á allar sýningarnar og kostar það aðeins 1.000 kr.
Verkefnastjóri Þjóðleiks á Norðurlandi og Vestfjörðum er Íris Olga Lúðvíksdóttir, kennari í Varmahlíð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.