Það svíkur engan sódavatnið frá Akureyri!
Bók-haldið er einn af þeim þáttum sem prýða Feyki öðru hvoru. Fyrr í sumar bankaði Bók-haldið rafrænt upp á hjá sjónvarpsmanninum Gísla Marteini Baldurssyni en eins og alþjóð veit er Gísli Reykvíkingur og einhver mesti Tinna-spekingur landsins. Ótrúlegt, en alveg dagsatt, þá var kappinn í sveit á unglingsárum sínum í Vestur-Húnavatnssýslu, nánar tiltekið á bænum Þórukoti í Víðidal.
„Þar lærði ég margt um töfra svæðisins. Bæði um nærliggjandi svæði, svo sem heiðina, Hvammstanga og Vesturhóp, en aðallega þó um Víðidalinn sjálfan,“ segir Gísli sem er fæddur 1972 og hefur því verið í sveit á gósentíma sveitaballanna í ðí eitís.
„Ungmennafélagið Víðir var mjög virkt á þessum árum og við stunduðum reglulegar fótboltaæfingar. Við fengum líka leyfi til að ríða yfir Víðidalsá til að fara í sjoppuna góðu í Víðigerði og svo voru auðvitað böll í Víðihlíð. Þetta var hvert öðru skemmtilegra. Fólkið í Þórukoti var mér ákaflega gott, þar voru hjónin Baldur og Ingibjörg ásamt Kristínu Heiðu og Pétri Þresti sem svo tók við búinu. Ég hef alltaf elskað dýr og Þórukot var fullkomið fyrir mig því við vorum í miklu návígi við dýrin. Ég var fyrst kúasmali en síðasta árið mitt var mér treyst fyrir umsjón með fjósinu sem hentaði mjög vel því ég elska kýr. Í Þórukoti voru líka alltaf góðir hestar á járnum sem ég mátti henda mér á berbakt hvenær sem ég vildi og við Gnýr (eftirlætis hesturinn minn) fórum því margar ferðir upp í fjall eða yfir á að snattast eitthvað. Minningar mínar úr Víðidalnum eru ákaflega góðar.“
Í Bók-halds-þáttunum er spurt út í bóklestur viðkomandi og svaraði Gísli skilmerkilega eins og hans er von og vísa. Hann fékk hins vegar aukaspurningar vegna áhuga hans og blaðamanns á Tinna-bókunum. Við birtum þann kafla viðtalsins.
Hver er galdurinn við Tinna-bækurnar og hver þeirra er í uppáhaldi? „Eins og Laxness er Hergé [skapari Tinna] samtíða 20. öldinni og stormar þeirrar aldar sjást í Tinnabókunum, þótt þær séu ekki beinlínis um þá atburði, frekar en bækur Laxness. Það gefur bókunum talsvert vægi. En stór hluti af því hversu vel þær ná til ólíkra menningarhópa er það hversu einfaldur karakter Tinni er. Allir geta séð sig í Tinna. Mín eftirlætisbók er Tinni í Tíbet. Hún er fyrst og fremst svo falleg, en þar eru líka hin klassísku minni trygglyndis og vináttu sem einkenna bókaflokkinn, dirfska Tinna auk þess sem Hergé sýnir enn og aftur hvað hann var snjall í að draga fram einkenni fjarlægra og framandi menningarheima og gera það af virðingu, sem ekki var alltaf raunin í fyrstu bókunum.“
Hver er uppáhalds síðan þín í Tinna-bókunum? „Eftirlætis senan mín í Tinna-bókunum hefur alltaf verið þegar Tinni fer á milli glugga utanhúss á háhýsi í Chicago. Mig hefur dreymt um að koma til Chicago alveg síðan ég las Tinna í Ameríku.“
Hvaða persóna finnst flér athyglisverðust eða skemmtilegust? „Mér finnst Vaila Veinólínó stórkostlegur karakter. Raunar eini kvenkarakterinn sem nær máli en það er eitthvað svo fyndið að setja heimsfræga óperusöngkonu inn í hinn menningarsnauða heim Tinna og Kolbeins og þótt maður hafi sem ungur lesandi verið með þeim í liði og fundist næturgalinn frá Mílanó vera óþolandi sér maður í seinni tíð hvað þeir eru barnalegir og hún stór persóna.“
Kemur fyrir að þú vitnir í Kolbein Kaftein dagsdaglega? „Það er þá helst að maður segi: „Það svíkur engan sódavatnið frá Akureyri“ – þegar maður er að fá sér eitthvað sterkara!“
Allt viðtalið við Gísla Martein má finna í 29. tölublaði Feykis sem hægt er að nálgast á netinu með því að gerast rafrænn áskrifandi.
- - - -
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.