Sveitin togaði eins og sterkasti segull
Skagfirðingurinn Karl Jónsson og Eyfirðingurinn Guðný Jóhannesdóttir ákváðu að söðla um fyrir rúmum tveimur árum síðan og fluttu frá Sauðárkróki aftur á heimaslóðir Guðnýjar, að Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit. Þar búa þau ásamt börnum sínum og reka ferðaþjónustufyrirtækið Lamb Inn í samstarfi við Jóhannes Geir Sigurgeirsson, föður Guðnýjar, auk þess sem Guðný er að ljúka mastersnámi í kennslufræðum. Blaðamaður Feykis rak nefið inn til þeirra hjóna í síðustu viku og fékk að heyra um líf þeirra og störf í sveitinni, yfir kaffi og kleinum.
Við eldhúsborðið í gamla húsinu á Öngulstöðum 3 sitja Guðný og Kalli, ásamt tveggja ára syni sínum, sem hæstánægður gæðir sér á karamellusnúð. „Ég á stóra fjölskyldu hér fyrir norðan og er alin upp í stórfjölskylduumhverfi. Í þessu húsi elst ég upp fram að fermingu; hér voru afi og amma og langamma og afabróðir, alltaf vinnumenn og fullt af fólki. Þannig er það í raun að þróast aftur núna, við erum alltaf með fullt hús af fólki,“ segir Guðný, þau líta á hvort annað og hlægja. „Það er voða indælt að fá að koma inn í svona fjölskyldulíf. Ég á sjálfur frekar litla fjölskyldu og að komast inn í svona stóra fjölskyldu þar sem er svona mikið líf og fjör- mér finnst það æði og krökkunum líka,“ segir Kalli.
Kalli var með Sjóvá umboðið á Sauðárkróki á sínum snærum áður en þau fluttust búferlum. Þá var hann einnig liðtækur í körfuboltanum árum áður og var m.a. þjálfari Tindastóls um tíma. Guðný hefur undanfarin ár lagt stund á kennslufræði við Háskólann á Akureyri en hún starfaði áður sem ritstjóri Feykis, frá árinu 2006 til 2011. „Ég er núna að klára fimm ára kennaranám. Mér finnst svo agalega gaman að kenna, þó ég sé bara í starfsnámi núna þá er ég sannfærð um að ég hafi hitt á fína hillu,“ segir hún glöð í bragði.
Þegar Guðný og Kalli eru spurð hvers vegna þau hafi ákveðið að flytja á Öngulsstaði svarar Guðný að hana hafi langað til þess að koma aftur í sveitina frá því hún flutti að heiman. „Það hefur aldrei verið tækifæri til þess þar til fyrir tveimur árum. Þá kom það, tækifærið að koma hingað í sveitina - sem togar eins og sterkasti segull,“ segir hún. Kalli tekur undir.
„Okkar líf hefur svolítið einkennst á því að stökkva á tækifæri sem hafa komið upp. Frá því ég giftist inn í þessa fjölskyldu þá hef ég horft á þetta fyrirtæki hér í hillingum. Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á ferðaþjónustu og starfað töluvert við ferðaþjónustu, þannig að þetta var kannski bara lokapunkturinn. Að flytja hingað og fá að taka við þessu,“ segir Kalli.
Kalli og Guðný eru í ítarlegu viðtali í Feyki vikunnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.