Sumarmessa í Stíflu í Fljótum á sunnudaginn
„Ég hvet fólk til að mæta í messuna sem byrjar kl. 14 á sunnudaginn og eiga saman góða stund,“ segir séra Halla Rut Stefánsdóttir þegar Feykir forvitnast um messuhald í Knappstaðakirkju í Stíflu í Fljótum. Messað er í Knappstaðakirkju einu sinni á ári og gerir Veðurstofan ráð fyrir sólríkum og fallegum sumardegi á Norðurlandi nú á sunnudaginn. Heimsókn í Fljótin hljómar því sem bráðsnjöll hugmynd.
Bærinn Knappsstaðir fór í eyði 1974 en kirkja hefur verið á Knappsstöðum frá því snemma á öldum. Á netsíðunni Ísland í hnotskurn segir að kirkjan hafi stórskemmst í jarðskjálta 12. júní 1838 þannig að ákveðið var að reisa nýja kirkju. Sú var vígð 1840 og er elsta timburkirkja landsins og ein hinna minnstu. „Falleg kirkja í fallegri sveit,“ segir Halla Rut. Kirkjubyggingin var meðal annars fjármögnuð með því að selja Guðbrandsbiblíu sem var í eigu kirkjunnar. Barst biblían til útlanda en var síðar gefin til Íslands árið 1933 og er nú á Landsbókasafni.
Er gaman að halda messu í lítilli kirkju eins og Knappstaðakirkju þar sem messað er einu sinni á ári? „Það er gaman að messa í Knappstaðakirkju,“ segir Halla Rut. „Það er alltaf sumarmessa og er hún ávallt vel sótt. Heimilin í Fljótunum koma með kaffibrauð og við eigum samfélag eftir messuna sem er svo dýrmætt og skemmtilegt. Það er hefð að reiðmenn mæti á fákum sínum í messuna. Arnþrúður Heimisdóttir í Langhúsum mun annast undirbúning hópreiðar í messuna og verður farið frá Ketilási kl.12:30.“
Eru margar kirkjur í Skagafirði þar sem aðeins er messað einu sinni á ári? „Það eru nokkrar kirkjur í Skagafirði þar sem messað er einu sinni á ári; Knappstaðakirkja, Ábæjarkirkja, Grafarkirkja og Sjávarborgarkirkja,“ segir Halla Rut en bætir við í lokin að aðrar kirkjuathafnir fari þó stundum fram í þessum kirkjum.
Myndirnar hér að neðan voru teknar í sumarmessu í Stíflu árið 2011.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.