Stórsýningin „Árið er...lögin sem lifa“ í Sæluviku

Sýningin „Árið er… lögin sem lifa“ verður haldin í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í Sæluviku, föstudaginn 29. apríl. Þar verður íslensk dægurlagasaga flutt í tali og tónum af landsþekktum söngvurum í bland við upprennandi stjörnur. Fram koma meðal annarra Magni Ásgeirsson, Sigríður Thorlacius, Sigríður Beinteinsdóttir og fjöldi skagfirskra söngvara.

Að sýningunni standa meðal annars Adam Smári Hermannsson, Áskell Heiðar Ásgeirsson hjá Viðburðarríkt hf., Magni Ásgeirsson, Magnús Þór Jónsson og mennirnir á bak við Edduverðlaunaþættina „Árið er…“ sem slegið hafa í gegn í útvarpi og sjónvarpi, þeir Gunnlaugur Jónsson og Ásgeir Eyþórsson. Framkvæmdastjóri sýningarinnar er Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir.

Að sögn Sigurlaugar Vordísar og Áskels Heiðars verður sýningin í anda hinna margverðlaunuðu „Árið er“ heimildarþátta í útvarpi og sjónvarpi þar sem við kynnumst sögunum á bakvið lögin. Sjáum hvernig hægt er að setja sum þeirra í nýjan búning en fyrst og fremst verður sungið, dansað og skemmt sér með lögunum sem þjóðin hefur lært að elska og gert að sínum.

„Þetta verður 20 laga show og verður kannski pínu eins og að vera staddur inni í sjónvarpsþætti á tímabili en svo kemur lifandi tónlist á sviðinu,“ sagði Áskell Heiðar þegar þau Sigurlaug settust niður með blaðamanni í gær. 

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt concept. Ég held að þetta verði bæði flott show en líka bara skemmtilegt að vera þarna. Það koma allir saman og eru í nostalgíunni og dansa svo af sér rassinn þegar showið er búið,“ bætir Sigurlaug Vordís við. 

Þau hvetja hópa til að fjölmenna og hafa gaman saman og segjast opin fyrir því að gefa hópafslætti t.d. fyrir saumaklúbba, vinnustaði, árganga og fleiri. Þó miðasala sé ekki formlega hafin þá er hægt að hafa samband hafa samband við Sigurlaugu Vordísi vegna þessa og sömuleiðis ef einhverjir vilja panta borð. 

Nánar verður fjallað um stórsýninguna í Feyki í næstu viku. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir