Stelpur rokka á Norðurlandi
Stelpur rokka! eru sjálfboðaliðarekin samtök sem starfa af feminískri hugsjón við að efla ungar stelpur í gegnum tónlistarsköpun. Kjarninn í starfinu eru rokksumarbúðirnar, þar sem stelpur læra á hljóðfæri, spila saman í hljómsveit, kynnast farsælum tónlistarkonum, fræðast um ýmsar hliðar tónlistar og jafnréttisstarfs og koma fram á lokatónleikum fyrir framan fullan sal vina og fjölskyldu. Samtökin fagna fimm ára afmæli og hafa nú verið stofnuð undirsamtök, Stelpur Rokka Norðurland. Feykir ræddi við Önnu Sæunni Ólafsdóttur verkefnisstýru um samtökin og rokkbúðir sem haldnar verða á Akureyri í lok mánaðarins.
„Það hafa tvisvar áður verið búðir á Akureyri, sumrin 2013 og 2014, en stefna samtakanna er að sem flestar stúlkur og transkrakkar hafi aðgang að starfinu. Dæmi um það eru rokkbúðirnar sem við héldum í Grænlandi og Færeyjum í fyrsta skiptið nú í sumar, í tilefni af 5 ára afmæli Stelpur rokka!, og gekk ótrúlega vel. Í ár var hins vegar ákveðið að taka skrefið lengra og stofna sérstök samtök fyrir Norðurland og hafa hana meira sjálfbæra starfsemi. Einnig að nýta allar þær flottu tónlistarkonur sem eru á svæðinu, en hingað til hefur þekkingin á rokkbúðahaldinu mestmegnis verið fyrir sunnan. Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir hefur verið okkar manneskja í Skagafirði og hjálpað okkur að ná til stúlkna og transkrakka þar,“ útskýrir Anna Sæunn m.a. í viðtali í nýjasta tölublaði Feykis sem kom út í gær.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.