Slysavarnardeildin Harpa fagnar 50 árunum
Slysavarnardeildin Harpa á Hofsósi fagnar 50 ára afmæli sínu um þessar mundir en félagið var stofnað á uppstigningardag þann 4. maí 1967. Stofnfélagar voru 28 konur og hefur meginmarkmið félagsins alla tíð verið að afla fjár til að styðja við starfsemi björgunarsveitarinnar Grettis. Það hefur félagið gert með ýmsum hætti í gegnum tíðina, meðal annars með sölu á jólapappír og jólakortum, en frá upphafi hefur helsta fjáröflunarleiðin verið kaffisala að lokinni hátíðadagskrá á sjómannadaginn.
Kaffihlaðborð þeirra slysavarnarkvenna í dag var stórglæsilegt að vanda og var tímamótanna minnst. Guðrún Þórðardóttir á Höfða las upp fyrstu fundargerð félagsins, þeim stofnfélögum sem voru viðstaddir voru færðir blómvendir og fyrir hönd Björgunarsveitarinnar Grettis færðu þau Ingvar Daði Jóhannsson og Sonja Finnsdóttir konunum gjafabréf í siglingu sem þakklætisvott fyrir 50 ára óeigingjarnt starf.
Þeir stofnfélagar sem staddir voru í veislunni í dag eru: Guðný Jóhannsdóttir, Guðrún Þórðardóttir, Margrét Albertsdóttir, Stefanía Jónsdóttir og Svanhildur Guðjónsdóttir. Tvær þær síðastnefndu, Stefanía og Svanhildur, voru kjörnar í fyrstu stjórn félagsins. Stefanía er nú 92 ára og Svanhildur 91 árs og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum bera þær aldurinn vel.
Félagar í Slysavarnardeildinni Hörpu eru nú 13 talsins. Formaður er Herdís Fjeldsted.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.