Skipulagning Elds í Húnaþingi miðar vel áfram
Eldur í Húnaþingi fer fram dagana 20. – 24. júlí, hefst á miðvikudegi og endar á sunnudegi. Dagskráin er þegar farin að taka á sig mynd. Í Feyki sem kom út í síðustu viku er rætt við framkvæmdastjóra hátíðarinnar, Sólrúnu Guðfinnu Rafnsdóttur, um hvernig gengur. Hún og eiginmaður hennar, Mikael Þór Björnsson, tóku formlega að sér skipulagningu hátíðarinnar í desember sl. og sér hann um fjármálastjórn.
Aðspurð um hvernig dagskrá hátíðarinnar lítur út um þessa mundir segir Sólrún þrenna tónleika fastbókaða. „Hundur í óskilum verður á miðvikudagskvöld sem er nýjung, Melló músika, tónleikar heimamanna verða á fimmtudeginum, á föstudeginum verða tónleikar í Borgarvirki eins og venjan er en spurning með hverjum. Retro Stefson verða á föstudegi og Jónas Sig. og Ritvélar framtíðarinnar verða á laugardeginum með tónleika, sem er nýjung hjá okkur. Það verður fjölskylduball fyrir tónleika á laugardeginum og eftir tónleika verður ball með hljómsveitinni No more drama,“ útskýrir hún.
Hún segir að stefnt sé að því á að dreifa á dagana alls kyns viðburðum, sýningum og námsskeiðum. „Má þar nefna dorgveiðimót, brúðugerðarnámskeið, íþróttadaginn í íþróttamiðstöð, fjallaskokk USVH, sápurennibraut, veltibíllinn kemur frá TM-tryggingum, BMX brós verða með hjólanámskeið og sýningu. Leikhópurinn Lotta kemur til okkar á sunnudeginum, það verður heimsmeistaramót í kleppara og hverfakeppni í brunaslöngubolta, hoppukastalar og kjötvagn frá félagi sauðfjárbænda. Auk þessara viðburða er verið að skoða ýmislegt fleira sem kemur í ljós þegar nær dregur. Þá verður starfrækt útvarp allan tímann og Heiðar Örn Rúnarsson verður útvarpsstjóri,“ segir Sólrún.
„Hátíðin fer vaxandi og er stefnan í ár að hafa hátíðina létta, skemmtilega og fjölbreytta þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Það hve hátíðin hefur gengið vel felst í því að það er mikið af góðu fólki sem kemur að hátíðinni í sjálfboðavinnu. Einnig er samstaðan mikil í sveitafélaginu og metnaður fyrir því að hafa Eld í Húnaþingi sem glæsilegastan. Við viljum hvetja alla til að fara að huga að skipulagningu á sumarfríi og er alveg tilvalið að vera í fríi þessa daga sem Eldur í Húnaþingi stendur yfir. Gistimöguleikar eru margir hér á svæðinu og við erum búin að panta gott veður,“ segir Sólrún glöð í bragði og bætir við: „Þetta verður geggjað!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.