Skemmtilegar flíkur sem eru áberandi núna

Reimaður kjóll - www.einvera.is, Samfestingur - www.ntc.is
Reimaður kjóll - www.einvera.is, Samfestingur - www.ntc.is

Í seinasta pistli fjallaði ég um netverslanir á Íslandi og því miður eru þær ekkert rosalega margar en það er alltaf ný og ný að bætast við í flóruna, mér til mikillar ánægju. En á meðan ég ráfaði um á netinu að leita þær uppi gaf ég mér tíma til að skoða fataúrvalið í hverri og einni. Það voru nefnilega nokkrar flíkur sem gripu augað mitt strax því þær voru bæði áberandi og pínu öðruvísi þegar á heildina var litið. Mig langar því til að taka þær fyrir í þessum pistli, því þetta geta verið fallegar og klæðilegar flíkur sem geta gert mikið fyrir heildar „lookið“.    

 

Samfestingar bæði hversdags- og partýdress

Samfestingar er eitt að því sem allflestar verslanir bjóða upp á í hausttískunni í dag. Þeir virka þægilegir og „looka“ vel á modelum en þeir hljóta að mátast misvel því sniðin eru mörg. En ég get ekki ímyndað mér að þetta sé rétta dressið fyrir pissuglaða partýpinna,  nema hann sé hreinlega úr mjög teygjanlegu efni. Ég sé mig í anda á djamminu, alveg í spreng, komin inn á klósett og ætla að draga niður pilsið eða buxurnar og henda mér á klósettið en í þessu tilviki þarf að fara að klæða mig úr að ofan til að geta gert mitt. Samfestingurinn fer svo allur í hlandið sem manneskjan á undan skildi eftir sig á gólfinu, því hún hitti ekki og það endar annaðhvort framan á mér eða á bakinu með tilheyrandi ilmi. Hljómar allavega eins og góð saga eftir djamm eða kannski er ég bara að mikla þetta eitthvað fyrir mér. En í dag er hægt að finna allskonar útfærslur á samfestingum, í allskonar efnum, sem eru bæði hugsaðir sem fínasta partýdress ásamt því að vera ágætis hversdagsdress því það er mjög auðvelt að klæða þá upp og niður með aukahlutum og skóm.   

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð margar klæðast þessu sem eru með auka kíló, stóra rassa og ágæt læri, eins og ég er svo heppin að vera. En auðvitað væri gaman að prófa og sjá hvernig þetta kemur út. En þá finnst mér algjört möst að vera á hælaskóm við, þ.e. ef þú ert að fara eitthvað fínt, því smá hælar, breyta líkamstjáningunni okkar svo mikið, og allt í einu erum við orðnar ótrúlega sjálfsöruggar og flottar.

Systur og Makar eru reynda með frábæra lausn fyrir þá sem langar til að fá sér flottan samfesting en vilja samt vera með stuðning við magan og hugsanlega getað farið á klósettið án þess að lenda í einhverju veseni eða jafnvel fara úr lið við athöfnina. „Samfestingurinn“ þeirra er s.s. uppháar víðar buxur og „crop top“ í stíl. Þessi hönnun hjá henni kemur ótrúlega vel út og þetta er eitthvað sem myndi henta mér ótrúlega vel.

Ponsjó ótrúlega falleg og nytsamleg

Ponsjó í mínum huga er reyndar kassalaga flík með gati í miðjunni fyrir hausinn og myndar einskonar tjald yfir líkamann. Ég átti eitt voðalega fallegt frá prjónaverksmiðjunni VÖKU. Þetta ponsjó notaði ég í skátunum í gamla daga, var mjög hlýtt og notalegt því það var úr ull. En í dag er orðið ponsjó einnig notað fyrir samskonar flík sem líkist frekar risastórum trefli  sem er vafinn utanum líkamann og getur verið mjög tignarlegt og fallegt. Í sumar voru þau í boði úr þunnum efnum sem minnti helst á sjal og notað á heitum dögum yfir sundsboli og bikiní en þegar líða tók á haustið fóru þau að fást í þykkari efnum og mismunandi síddum. Þá er bara spurningin hvernig þú ætlar þér að nota ponsjóið. Það getur tekið við af jakkanum og notast því sem yfirhöfn og svo er auðvitað hægt að nota það sem peysu. Þá hef ég einnig séð það sem fín slá yfir sparifatnað, þá aðallega til að hlífa ekki til að ylja. Svo eru enn aðrir sem nota þetta sem kósýteppi upp í sófa á köldu kvöldi með kaffi í annarri og konfekt í hinni. Gerist ekki mikið betra.

Reimað eða rúllukragi?

Reimað er eitthvað sem virðist vera að ná öllum völdum í bransanum í dag og hægt er að fá bæði samfestinga og kjóla með þessum „detail“, ásamt samfellum og bolum í allskonar efnum. Reimað minnir mig alltaf á korsilett og gaman að sjá þetta notað framan á flíkurnar. Þetta er því tilvalið fyrir þær sem vilja sýna smá skoru en ég held samt að ég haldi mig bara við rúllukragann, í honum líður mér best.

Er svo ekki tilvalið að henda í einn jólafatapistil þar sem að desember er genginn í garð.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir