Sigga startar tískuþætti á Feyki.is og miðlar reynslu sinni úr tískuheiminum

Sigríður Garðarsdóttir
Sigríður Garðarsdóttir

Ef þú hefur áhuga á að fylgjast með tísku og lífsstílsbloggum þá er spurning hvort þú átt eftir að hafa áhuga á að fylgjast með mér. Ég var spurð að því hvort ég hefði áhuga á að skrifa eitthvað inn á Feykir.is og ég verð nú að viðurkenna að ég hugsaði strax nei - það get ég aldrei gert. En þar sem ég er ekki nei mannekja fór hausinn á fullt og jaaa kannski ég geti mögulega sett saman eitthvað skemmtilegt þrátt fyrir að vera staðsett á Sauðárkróki þar sem úrvalið og fjölbreytnin er ekki mikil. En hver veit kannski gæti þetta orðið áhugaverð lesning fyrir einhverja en best væri nú að byrja á að kynna sig og hvað ég hef verið að gera undanfarin ár þessu tengt.

Ég heiti Sigríður Ingibjörg Garðarsdóttir og er fædd og uppalin á Sauðárkróki, útskrifast frá FNV 2002. Þá lá leið mín beint á gólfið hjá Tískurisanum NTC hf., sem er í eigu Svövu Johansen, og margir þekkja undir Gallerí Sautján, Gs skór, Kultur og margar aðrar verslanir. Þar byrjaði ég að vinna sem sölumanneskja og ég fann strax að þetta var eitthvað sem átti vel við mig, þ.e. að aðstoða og vera í samskiptum við fólk. Ég var fljót að vinna mig upp í að vera verslunarstjóri yfir skóversluninni Focus skór í Kringlunni og eftir nokkur ár þar bauðst mér að verða rekstrarstjóri yfir Focus skór, Smash og Sparkz, sem og ég auðvitað stóðst ekki, þrátt fyrir að löngun í mentun var farin að krauma í mér.  

Þegar ég segi fólki hvað ég hef verið að vinna við fyrir sunnan þá hljómar þetta í eyrum sumra eins og eitt stórt ævintýri, tala nú ekki um allar innkaupferðinar sem ég fór í og eitt árið taldi ég sjö ferðir. Þetta var ekki leiðinlegt enda staldraði ég við hjá NTC hf. í aðeins tíu ár og erfitt að fá vinnuleiða, en auðvitað var þetta krefjandi verkefni, tala nú ekki um þegar bankarnir hrundu og ég úti á Ítalíu að versla inn skó. Það að hafa unnið hjá stóru og vel reknu fyrirtæki er mikil og góð reynsla í bankann minn, bara það að ganga í gegnum alla hagræðinguna sem átti sér stað í rekstrinum eftir hrunið til þess eins að lifa af fyrstu árin, kallaði á ennþá meiri pressu frá yfirmönnunum að standa sig vel og skila góðum hagnaði í verslununum mínum. Þá var vissara að versla rétt inn og vera á tánum og fylgjast með tískunni og þörfum kúnnans, því samkeppnin í þessum bransa er mjög hörð.

Á öllum þessum tíma sem ég var hjá þeim lærði ég ótrúlega mikið, kynntist fullt af fólki bæði hér heima og úti og held ég að þegar upp er staðið hafi ég verið betur sett með þennan skóla lífsins en að sitja á skólabekk þessu tengt og vinna ekkert við þetta. Kannski það eigi eftir að koma betur í ljós í framtíðinni því í mér blundar alltaf sú löngun að opna tískuvöruverslun hér á Króknum. 

En af hverju að flytja aftur á Krókinn?

Frá því að ég flutti suður 2002 tók ég þá ákvörðun að þegar, og ef, ég myndi eignast barn í framtíðinni þá myndi ég flytja aftur á Krókinn til að ala það upp í faðmi fjölskyldunnar. Sú ákvörðun stóð ekkert í mér þegar ég vissi að ég væri ólétt. Ég var oft spurð af vinum og vinnufélögum hvað í ósköpunum ég ætlaði að gera á Sauðárkróki en ég var ákveðin í því að þó ég þyrfti að vinna við eitthvað sem tengdist því sem ég væri búin að vera gera ekki neitt og á töluvert lægri launum myndi ég flytja norður, punktur. Þann 15. janúar 2012, tveim vikum áður en ég átti að eiga mitt fyrsta barn, fluttum við svo norður og daginn eftir var ég komin inná Akureyri í fæðingu.

Það tók mig samt ágætan tíma að finna mig hérna á Króknum, þó að vinir og fjölskyldan hafi verið til staðar. Það var svolítið stór pakki að hætta í vinnunni minni, sem ég hafði mikla unun af, flytja aftur heim í foreldrahús, óvissa um vinnu og eignast barn. Þetta allt var aðeins of stór pakki á einni viku fyrir rútínumanneskjuna mig sem þurfti yfirleitt að skipuleggja nokkrar vikur fram í tímann.

Í dag næstum, fjórum árum eftir að ég flutti hingað á Krókinn, er ég komin í vinnu hjá Nýprent og líkar það vel, gæti verið að reynsla mín af tískubransanum geti skilað sér á skemmtilegan hátt í einhverskonar „Tísku og lífsstílsbloggi?“ ..... það sakar allavega ekki að reyna.

Í fyrsta pistlinum ætla ég að fjalla um yfirhafnir og aukahluti tengda haustinu þannig að endilega fylgist með því hann kemur seinna í dag.  

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir