Sérstök aukasýning á Sveitapiltsins draumur (eða bara martröð)

Sérstök aukasýning á leik- og skemmtiverkinu „Sveitapiltsins draumur (eða bara martröð?)“ verður laugardaginn 31. október í félagsheimilinu Höfðaborg. Ljósm./Bærinn undir Nöfunum.
Sérstök aukasýning á leik- og skemmtiverkinu „Sveitapiltsins draumur (eða bara martröð?)“ verður laugardaginn 31. október í félagsheimilinu Höfðaborg. Ljósm./Bærinn undir Nöfunum.

Sérstök aukasýning á leik- og skemmtiverkinu „Sveitapiltsins draumur (eða bara martröð?)“ verður laugardaginn 31. október í félagsheimilinu Höfðaborg. Leikfélag Hofsóss og Sönglög í Sæluviku frumsýndu verkið síðastliðna páska fyrir troðfullu húsi,  undirtektir voru frábærar og komust færri að en vildu. Rætt er við forsvarsmenn sýningarinnar í Feyki sem kom út sl. fimmtudag.

Þegar Einar Þorvaldsson og Margrét Berglind Einarsdóttir eru spurð hvers vegna ákveðið var að setja leikverkið á svið á ný svara þau að það sé einfaldlega vegna þess að bæði aðsókn og viðtökur fóru langt fram úr þeirra björtustu vonum.  „Við fengum fyrirspurnir um aukasýningu og erum loks að láta verða af henni,“ segja þau. Í heildina taka um 30 manns þátt og koma að sýningunni á einn eða annan hátt.

„Félagsheimilið Höfðaborg átti 40 ára vígsluafmæli í nóvember 2013 en þá gafst ekki tækifæri að halda upp á það vegna framkvæmda í húsinu.  Þegar þeim lauk fórum við að hugsa okkur til hreyfings. Okkur langaði að gera eitthvað öðruvísi og ákváðum að semja sögu. Við vildum ekki hafa þorrablótsþema á þessu, þar sem gert er óspart grín að sveitungunum, heldur semja sögu sem gæti gerst í hvaða sveit sem er,“ segir Einar.

Sveitapilturinn fjallar í stórum dráttum um sex ólíka einstaklinga, ástir þeirra og örlög. „Einhver hjálp og kannski einhverjar hindranir verða á vegi þessara einstaklinga því erkiengillinn Gabríel og hans mesti óvinur Lúsífer spila einnig stórt hlutverk. En þetta kemur betur í ljós á sýningunni sjálfri. Hver veit nema þetta hafi gerst hér í firðinum!“ segja þau.

Nýtt hljóðkerfi í Höfðaborg

Samhliða verkefninu og vegna afmælis Höfðaborgar var ákveðið að hefja söfnun á nýju, fyrsta flokks hljóðkerfi til nota fyrir félagsheimilið.  „Hljóðkerfið sem nú er í húsinu er einfaldlega ekki boðlegt fyrir lifandi tónlist þó það hafi staðið fyrir sínu, t.d. á þorrablótum og slíku. Nýja hljóðkerfið mun að sjálfsögðu nýtast þar líka. Við vonum að með tilkomu nýs, fullkomins hljóðkerfis muni Höfðaborg verða betur nýtt í firðinum, m.a. sem tónlistarhús,“ segir Einar.

Sem fyrr segir verður sýning laugardaginn 31. október og hefst kl. 21:00. Miðapantanir eru í síma 893-0220 (hjá Gunnu). „Á fyrri sýningunni seldust miðarnir eins og heitar lummur svo við mælum með að fólk panti sér miða sem fyrst,“ bæta Einar og Margét Berglind við.

Nánar er rætt við Einar og Margréti Berglindi um sýninguna og tilurð hennar í Feyki vikunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir