Samstarf við myndlistamenn sem eiga rætur að rekja í Skagafjörð
Þann 1. júlí næstkomandi verður myndlistarsýningin Nr.1 Umhverfing opnuð á Sauðárkróki. Sýningarhúsnæði er annars vegar Safnahúsið, og hins vegar Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Nafn sýningarinnar, NR.1 Umhverfing, vísar til þess að fleiri sýningar verði settar upp með sama móti víða um land á næstu árum í samstarfi við heimamenn.
Hugmyndasmiðir og skipuleggjendur verkefnisins eru myndlistamennirnir Anna Eyjólfs sem er jafnframt sýningarstjóri, Ragnhildur Stefánsdóttir, Rúrí og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Þessir myndlistarmenn mynda kjarna sýninganna á hverjum stað. Að sögn Önnu er hugmyndin að setja upp myndlistarsýningar á stöðum og í húsnæði þar sem ekki er hefð fyrir nútímamyndlistarsýningum og þar sem ekki fyrirfinnst hefðbundið sýningarhúsnæði fyrir myndlist. Tilgangurinn er að færa myndlistina inn í óhefðbundið rými og skapa umræðu um tilgang lífs og lista.
Anna segir að leitað hafi verið eftir samstarfi við myndlistarmenn sem eiga rætur að rekja í Skagafjörðinn, og munu eftirfarandi myndlistarmenn taka þátt í sýningunni á Sauðárkróki:
Anna María Sigurjónsdóttir
Auður Aðalsteinsdóttir
Finna Birna Steinsson
Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson
Jóhannes Atli Hinriksson
Kristín Reynisdóttir
Ragnheiður Ragnarsdóttir
Sólveig Baldursdóttir
Valgerður Bergsdóttir
Sýningarskrá verður gefin út í tilefni sýningarinnar og eru höfundar greina þau Margrét Elísabet Ólafsdóttir, list-og fagurfræðingur og Jón Ormar Ormsson. Hönnuður er Margrét Weisshappel.
Vert er að hvetja alla til að skoða verkin á sýningunni sem mun standa út september og bendir Anna á möguleikann á samstarfi við skólana á svæðinu, þar sem nemendur geta fengið leiðsögn um sýninguna og átt samtal við myndlistarmennina.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.