Saknar sundlauganna og gnauðsins í vindinum
Feykir þeytist heimsálfanna á millum í leit að íbúum af Norðurlandi vestra sem hafa komist í tölu brottfluttra íbúa landshlutans til lengri eða skemmri tíma. Nú tökum við hraustlegt stökk í vestur og lendum hjá Áslaugu Sóllilju Gísladóttur í Vancouver í Kanada. Hún er eitt fjögurra barna Bryndísar Kristínar Williams Þráinsdóttur og Gísla Svans Einarssonar sem búa á Suðurgötunni á Króknum.
Áslaug Sóllilja starfar sem framendaforritari hjá Shopify. Kærasti Áslaugar heitir Friðrik Laxdal Kárason og fyrir sex árum stakk hann upp á því að fara í framhaldsnám til Vancouver í Kanada og hún segist ekki hafa tekið í mál að sitja ein eftir heima á Íslandi. „Svo ég skellti mér með. Ég var nýútskrifuð úr tölvunarfræði og fannst þetta alveg tilvalið ævintýri. Ég var reyndar sex mánuði að finna mér vinnu við hæfi því það tíðkast hérna úti að fara í starfsnám og fá sína fyrstu vinnu í framhaldi af því, en ég mætti með nánast enga starfsreynslu og ekkert network og þurfti því að harka smá. Það var strembið að vera atvinnulaus og þekkja ekki markaðinn en góð reynsla í farteskið. Eftir að Friðrik lauk námi þá ákváðum við að vera tvö ár í viðbót í Vancouver en síðan eru liðin fjögur ár!“
Hvernig myndir þú lýsa venjulegum degi hjá ykkur? „Áður byrjuðum við daginn á því að hjóla í vinnuna, fórum í ræktina eftir vinnu og/eða héngum með vinnufélögunum. Síðustu 15 mánuði, vegna takmarkana og lokana, höfum við bæði unnið heima. Við vöknum klukkan 7:30 og fáum okkur te saman úti á svölum. Síðan loka ég mig af inni í svefnherbergi þar sem ég er búin að koma mér fyrir og Friðrik vinnur inni í stofu. Seinnipartinn tökum við æfingu úti og eldum svo kvöldmat. Stundum vinnum við eftir kvöldmat en ef ekki þá er það bara sjónvarpsgláp og síðan enn einn göngutúrinn fyrir svefninn – mjög einsleit tilvera í heimsfaraldrinum! Nýlega hafa takmarkanir verið mildaðar svo við höfum getað hitt vini í göngutúr, spilað tennis eða strandblak. Fyrir það þá máttum við ekki hitta neinn, ekki einu sinni úti.
Hver er hápunktur dagsins? „Áður var það ræktin eftir vinnu en núna myndi það vera morgunrútínan. Ég elska að byrja morgnana rólega, skipu-leggja daginn og hella upp á kaffi.“
Hvað gerir framendaforritari og hvað er Shopify? „Starf framendaforritara getur verið margvíslegt en ég sérhæfi mig í vefsíðugerð. Ég vinn með hönnuðum og öðrum sérfræðingum að hönnun og virkni vefsíðna, sem ég svo útfæri í kóða (nota þá aðallega HTML, CSS og JavaScript). Viðmót, aðgengi og öryggi vefsíðna skiptir gríðarlega miklu máli, hvort sem tilgangur þeirra er að birta fréttir, selja varning eða eitthvað allt annað.
Ég hóf störf hjá Shopify fyrr á þessu ári í markaðsteyminu þeirra. Shopify er vefverslunarkerfi sem gerir notendum sínum kleift að setja upp og reka sína eigin vefverslun.“
Hvað er best við að búa í þínu nýja landi? „Veðrið er klárlega einn af helstu kostunum við að búa hérna í Vancouver. Sumrin eru sólrík og ekki of heit og haustin eru svona týpísk amerísk haust eins og maður sér í bíómyndunum. Hér er mjög vinsælt að taka upp kvikmyndir og sjónvarps-þætti, enda Vancouver stundum kölluð Hollywood norðursins. Annað sem kemur upp í hugann er fólkið, hér er mjög ríkt fjölmenningar-samfélag og það virðist vera að Kanada hafi tekist vel að taka á móti innflytjendum og flóttafólki. Við höfum kynnst fólki sem á uppruna sinn hvaðanæva úr heiminum og það er ekki hægt að leggja mat á hversu dýrmætt það er, bæði upp á vináttu og til að brjóta niður staðalímyndir sem maður hefur ósjálfrátt myndað sér.“
Hvað er ólíkt með Kanada-mönnum og Íslendingum? „Kanadamenn eru upp til hópa kurteisari. Ég var smá tíma að venjast því að heilsa og kveðja strætóbílstjórana og spjalla við afgreiðslufólk en ég kann mjög vel við það í dag. Þetta eykur samkennd og stundum lendirðu í mjög góðu spjalli.“
Hefurðu eitthvað ferðast um Kanada? „Við höfum ferðast heilmikið innan Bresku Kólumbíu. Stendur þá upp úr hjólaferð í kringum vínekrurnar í Kelowna og svo snjóbrettaferðir til Whistler. Við keyrðum til Klettafjallanna í fyrra til að eltast við púðursnjóinn og það var ekki nema níu klst. akstur. Maður gleymir því oft hvað Kanada er stórt land og bara að komast yfir í næsta fylki er tíu klst. akstur í austur eða 22 klst. akstur í norður! Við höfum síðan bæði þurft að ferðast töluvert til Bandaríkjanna út af vinnu og höfum þá nýtt tækifærið og lengt ferðir til þess að ná nokkrum frídögum í borgum eins og San Francisco, New York og Seattle.“
Hafði Covid-19 mikil áhrif á líf þitt og lífið í Kanada? „Við vorum með ferðaplön sem ekkert varð úr og svo breytti það miklu fyrir okkur að geta ekki lengur mætt á skrifstofurnar og hitt vinina. Það tekur á að vera allan daginn heima hjá sér, sérstaklega þegar maður er ekki með almennilega vinnuaðstöðu. Við vorum heppin að fá tækifæri til að heimsækja Ísland um seinustu jól, þá ekki búin að hitta fjölskylduna í eitt og hálft ár og þegar við komum til baka þurftum við að fara í tveggja vikna einangrun heima hjá okkur. Það þýddi engin útivera og við þurftum að safna ruslinu okkar saman á svölunum!“
Hvers saknar þú mest að heiman? „Að sjálfsögðu fjölskyldunnar og vinanna. En þess fyrir utan þá eru sund-laugarnar efst á listanum og gnauðið í vindinum. Íslenskt nammi og Sauðárkróksbakarí koma þarna strax á eftir.“
Áslaug segir margt koma upp í hugann þegar hún er spurð um eitthvað eftirminnilegt sem drifið hefur á daga henna úti. „Ég ferðaðist til Hawaii með vinnunni þar sem við tjölduðum á ströndinni (glamping!) og fórum á brimbrettanámskeið. Þá er mjög minnisstætt þegar við sáum Karlakórinn Heimi syngja hérna og súrrealískt að sjá alla þessa Skagfirðinga samankomna hér í Vancouver. Ég var síðan inn og út af spítala í sex vikur sumarið 2017 með samfallið lunga þar sem ég endaði á að fara í lungnaaðgerð – ekki alveg skemmtilegasta lífsreynslan og mér tókst að hræða mömmu mína hressilega.
Fjölskylda og vinir hafa svo verið dugleg að heimsækja okkur og það er alltaf einstaklega gaman að sýna þeim borgina og fá að upplifa Bresku Kólumbíu með þeim. Ég og foreldrar mínir rákumst á leikarana Owen Wilson og Rufus Sewell á sitthvoru kaffihúsinu sama daginn. Mömmu þótti það ekki leiðinlegt.“
Feykir þakkar Áslaugu Sóllilju fyrir að gefa sér tíma til að segja lesendum frá lífi sínu í Kanada.
- - - - -
Ítarlegra viðtal við Áslaugu Sóllilju og umfjöllun um Vancouver birtist í 31. tölublaði Feykis um miðjan ágúst sl.
Hægt er að gerast rafrænn áskrifandi af Feyki með því að smella hér >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.