Sæluvika Skagfirðinga sett í dag - Lista- og menningarhátíð 24.–30. apríl 2016
Sæluvika Skagfirðinga, lista- og menningarhátíð, hefst um helgina. Í Sæluviku verður boðið upp á fjölbreytta menningardagskrá víðs vegar um fjörðinn. Sæluvika Skagfirðinga er ein elsta menningarhátíð landsins og nær saga hennar allt aftur til ársins 1874 þegar svonefndar sýslunefndarvikur hófu göngu sína.
Dagskráin er bæði metnaðarfull og glæsileg. Meðal þeirra viðburða sem fara fram á Sæluviku eru myndlistasýningar, leiksýningar, kvikmyndasýningar, fræðslufundir, Íslandsmeistaramótið í ísbaði, Ísmaðurinn 2016 og að sjálfsögðu munu söngur, dans og tónlist skipa veglegan sess.
Leikfélag Sauðárkróks mun að þessu sinni sýna leikverkið Fullkomið brúðkaup eftir Robin Hawdon, í leikstjórn Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar. Í Menningarhúsinu Miðgarði verður söngveisla norðlenskra söngvara og hinir árlegu Sæluvikutónleikar Karlakórsins Heimis sem að þessu sinni býður einnig upp á gestasöngvarann Elmar Gilbertsson tenór. Kirkjukvöldið verður á sínum stað í Sauðárkrókskirkju á mánudagskvöldinu í Sæluviku. Þá fer fram stórsýningin Árið er – lögin sem lifa, íslensk dægurlagasaga í tali og lifandi tónum í íþróttahúsinu á Sauðárkróki, með dúndrandi balli á eftir.
Af öðrum viðburðum má nefna myndlistarsýningar Hallrúnar Ásgrímsdóttur í Safnahúsi Skagfirðinga og samsýningu félaga í myndlistarfélaginu Sólon í Gúttó, vortónleika Tónlistarskóla Skagafjarðar, opið hús hjá Gallerí Alþýðulist og bókamarkað í Gallerí Lafleur, flóamarkað, opið hús í Maddömukoti, sölusýningu á verkum notenda Iðju-Hæfingar, listahátíð barnanna í Ársölum, hátíðarhöld 1. maí, fræðafund Heima á Hólum, kvikmyndasýningar, kósý kaffihúsakvöld, Íslandsmeistaramótið í Ísbaði, opna vinnustofu Skrautmena, tónleika Kvennakórsins Sóldísa, söngvasyrpu Leikhópsins Lottu, bílabíó, kynningu á starfsemi viðbragðsaðila í Skagafirði, opið hús hjá Skotfélaginu Ósmann, skák í Sæluviku, bikarmót í sundi, Ísmanninn 2016, Sæluvikuhlaðborð, morgunkaffi með kaffiklúbbnum „Skín við sólu Skagafjörður“, talnaspeki, yoga-stuð o.fl. Það er því ljóst að allir eiga að finna fjölbreytta viðburði við sitt hæfi í dagskrá Sæluvikunnar.
Setning Sæluviku Skagfirðinga fer að þessu sinni fram í Safnahúsinu á Sauðárkróki kl. 14.00, sunnudaginn 24. apríl. Við það tilefni verða í fyrsta sinn veitt Samfélagsverðlaun Skagafjarðar sem veitt verða þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel í að efla skagfirskt samfélag. Jafnframt verður þá opnuð sýning á verkum myndlistarkonunnar Hallrúnar Ásgrímsdóttur, auk þess sem úrslit í vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga verða kynnt. Nemendur Tónlistarskóla Skagafjarðar munu flytja nokkur lög.
Menningarlífið blómstrar í Skagafirði og óskum við ykkur öllum gleðilegrar Sæluviku!
Sjá dagskrá Sæluviku Skagfirðinga 2016 í heild sinni hér.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.