Sæluvika Skagfirðinga - Lista- og menningarhátíð 29. apríl – 5. maí 2018

Frá setningu Sæluviku 2017. Mynd: PF
Frá setningu Sæluviku 2017. Mynd: PF

Sæluvika Skagfirðinga, hin árlega lista- og menningarhátíð, hefst um helgina. Í Sæluviku verður boðið upp á fjölbreytta menningardagskrá víðs vegar um fjörðinn. Sæluvika Skagfirðinga er ein elsta menningarhátíð landsins og nær saga hennar allt aftur til ársins 1874 þegar svonefndar sýslunefndarvikur hófu göngur sínar.

Dagskráin er bæði metnaðarfull og glæsileg. Meðal þeirra viðburða sem fara fram á Sæluviku eru tónleikar, leikrit, myndlistasýningar, ljósmyndasýningar, kvikmyndasýningar, Ísmaðurinn 2018 og glæsileg atvinnulífssýning, þar sem gestir fá að sjá allt það sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða í þjónustu, framleiðslu og menningu á glæsilegri sýningu.

Leikfélag Sauðárkróks mun að þessu sinni sýna leikverkið Einn koss enn eftir Marc Camoletti, í leikstjórn Ingrid Jónsdóttur. Óskar Pétursson ásamt hljómsveit verður með tónleika í Miðgarði, þar sem sérstakir gestir verða Álftagerðisbræður og Diddú. Kvennakórinn Sóldís heldur tónleika í Frímúrarahúsinu á Sauðárkróki. Karlakórinn Heimir heldur afmælistónleika í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð, en Karlakórinn Heimir varð 90 ára þann 28. desember 2017.

Af öðrum viðburðum má nefna hið árlega Kirkjukvöld í Sauðárkrókskirkju, Litbrigði Samfélags 2018 í Gúttó, ljósmyndasýninguna Tíma-mót – mannfólk með augum ljósmyndara í fortíð og nútíð, málverkasýninguna Ævintýri á gönguför, ljósmyndasýninguna Nokkur góð skot, árlega sölusýningu á verkum Iðju-Hæfingar, vortónleikar Tónlistarskóla Skagafjarðar, Grettissögu í Kakalaskálanum, Sumarsælukaffi eldri borgara, Árskóladaginn, Sirkus Íslands, og ýmsa tónleika og fjör á vegum Barnamenningardaga Tónadans 2018.

Setning Sæluviku Skagfirðinga fer fram í Safnahúsi Skagfirðinga við Faxatorg á Sauðárkróki kl. 13:00, sunnudaginn 29. apríl. Við það tilefni verður kynnt ljósmyndasýningin Tíma-mót – Mannfólk með augum ljósmyndara í fortíð og nútíð, nemendur í Tónlistarskóla Skagafjarðar verða með tónlistaratriði, úrslit í Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga verða kynnt, auk þess sem Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2018 verða afhent.

Menningarlífið blómstrar í Skagafirði og óskum við ykkur öllum gleðilegrar Sæluviku!

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir