Róbert Daníel er maður ársins 2015 í A-Hún

Róbert Daníel Jónsson og fjölskylda. Mynd/RDJ
Róbert Daníel Jónsson og fjölskylda. Mynd/RDJ

Lesendur Húnahornsins hafa valið Róbert Daníel Jónsson, forstöðumann í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi, sem mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu árið 2015. Róbert Daníel hefur verið iðinn við að taka myndir af húnvetnskri náttúru og húnvetnsku mannlífi og deilt þeim á veraldarvefinn. Myndirnar hans hafa vakið athygli margra á fegurð svæðisins og áhugaverðum stöðum í sýslunni. Tilkynnt var um valið á þorrablóti Vökukvenna sem haldið var í Félagsheimilinu á Blönduósi sl. laugardagskvöld.

Á vef Húnahornsins segir að frábær þátttaka hafi verið í valinu að þessu sinni en Róbert Daníel tók við viðurkenningarskildi frá fulltrúa Húnahornsins á þorrablóti Vökukvenna.

Í innsendum tilnefningum frá lesendum má meðal annars lesa þetta um Róbert Daníel:

„Hann er að gera svo frábæra hluti fyrir bæinn okkar, myndirnar hans frábærar og alltaf er hann glaðlegur og jákvæður.“

„Hann sér endalausa fegurð í Húnavatnssýslu og deilir með okkur hinum, jafnt á vetri sem á sumri. Við sem sjáum myndirnar hans opnum augun fyrir okkar fallega stað og fyllumst þakklæti og stolti.“

„Hann hefur fært og frætt okkur í héraði svo mikið um náttúruna og fegurðina sem við höfum hér allt í kringum okkur í máli mjög svo fallegra mynda.“

„Hefur unnið ötullega að því að koma okkar svæði á kortið með jákvæðu viðhorfi og flottum myndum sem birtar eru á veraldarvefnum.“

„Með fallegum ljósmyndum sínum af Blönduósi og nágrenni hefur Róbert Daníel glatt marga, bæði þá sem búa á svæðinu en ekki síður brottflutta fyrrum íbúa þess. Myndirnar hans hafa vakið athygli margra á fegurð svæðisins og áhugaverðum stöðum í sýslunni. Myndirnar hafa hlotið verðskuldaða athygli og má leiða að því líkum að með myndum sínum hafi Róbert Daníel stuðlað að meiri hagsæld á svæðinu með því að laða að margan ferðamanninn.“

Þetta er í ellefta sinn sem lesendur Húnahornsins velja manni ársins í Austur-Húnavatnssýslu. Greint er frá þessu á huni.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir