Ort í þágu lífsins
Hagyrðingakvöld verður í Menningarhúsinu Miðgarði föstudaginn 30. október kl. 20. Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson stjórnar þingi hagyrðinga, sem eru Sr. Hjálmar Jónsson, Halldór Blöndal, Sigurður Hansen, Gunnar Rögnvaldsson og Eyþór Árnason.
Hjálmar Jónsson, fv. sóknarprestur á Sauðárkróki og núverandi Dómkirkjuprestur, sagði í samtali við Feyki í morgun að loksins fengi Einar Guðfinnsson að stjórna almennilegu þingi. „Þetta verður gaman á heimilislegum og skemmtilegum nótum, og við erum ánægð með að geta látið gott af okkur leiða,“ sagði Hjálmar ennfremur.
Flutt verða tónlistaratriði. Ólöf Ólafsdóttir syngur við undirleik Jóns Gíslasonar. Gunnar Rögnvaldsson og Jón Hallur Ingólfsson taka lagið. Framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands Ragnheiður Haraldsdóttir flytur ávarp. Allar tekjur af miðasölu, renna óskiptar til Krabbameinsfélags Íslands, Skagafjarðardeildar. „Þetta verður kvöld kveðskapar, söngs og gamanmála,“ segir í fréttatilkynningu um viðburðinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.