Nemendur Höfðaskóla tóku við viðurkenningu frá forseta Íslands
Feykir sagði frá því fyrr í vetur að Höfðaskóli á Skagaströnd hefði orðið hlutskarpastur í C-flokki í lestrarkeppni grunnskólanna, Samrómi, en nemendur, foreldrar, ættingjar og velunnarar skólans lásu af miklum móð. Höfðaskóli sigraði mikinn slag við Öxafjarðarskóla um toppsætið en í nafni skólans voru lesnar 153.288 setningar af 353 keppendum. Nú í liðinni viku voru fulltrúar skólans viðstaddir athöfn á Bessastöðum þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaun og viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í Samrómi.
Í frétt á vef Höfðaskóla segir að það hafi verið systurnar Ylfa Fanndís og Arney Nadía Hrannarsdætur, nemendur í 5. og 6.bekk, sem tóku á móti verðlaununum en þeim til halds og trausts var Þorgerður Þóra Hlynsdóttir, umsjónarkennari á miðstigi.
Auk Höfðaskóla voru það Salaskóli og Smáraskóli sem unnu í sínum flokkum en auk þeirra fengu þrír skólar sem lásu mest þvert á flokka viðurkenningu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.