„Mjög ánægð með að nú sé aðgengi fyrir alla bæði að kirkju og safnaðarheimili“

Hjólastólarampurinn við safnaðarheimilið. Myndir frá því í blíðunni um nýliðna helgi. MYNDIR: ÓAB
Hjólastólarampurinn við safnaðarheimilið. Myndir frá því í blíðunni um nýliðna helgi. MYNDIR: ÓAB

Feykir setti sig í samband við Sigríði Gunnarsdóttur, sóknarprest á Sauðárkróki, og forvitnaðist um smíði hjólastólaramps við safnaðarheimili Sauðárkrókskirkju. Í máli Sigríðar kom fram að nýi inngangurinn hafi verið tilbúinn um síðustu áramót en þeir sem notast við hann fara á milli kirkju og safnaðarheimilis og inn að vestan eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Smiðirnir Ólafur Þorbergsson og Ómar Helgi Svavarsson sáu um verkið.

Er stefnt að fleiri framkvæmdum við safnaðarheimilið í náinni framtíð? Í sumar var safnaðarheimilið málað að utan og skipt út borðum og stólum í salnum. Þetta gamla hús þyrfti sannarlega meiri endurbætur en viðhald er fjárfrekt svo ekki verður meira gert á næstunni. Okkur dauðlangar til að skipta út gólfefnum, það er næst á verkefnalistanum.

Er þá aðgengi fyrir fatlaða að safnaðarheimilinu framúrskarandi eða viðunandi? Aðgengi að safnaðarheimilinu er orðið viðundandi. Gömul hús verða seint með framúrskarnandi aðgengi.

Er sóknarprestur ánægður með verkið? Ég er auðvitað mjög ánægð með að nú sé aðgengi fyrir alla bæði að kirkju og safnaðarheimili, annað er ekki boðlegt. Verst að við höfum ekki enn haft tækifæri til að bjóða sóknarbörnunum að koma og skoða en það verður vonandi fyrr enn síðar.

Og í lokin, hvenær má reikna með að nýr líkbíll líti dagsins ljós? Nú styttist mjög í nýja líkbíllinn. Hann er kominn til landsins og við eigum von á að fá hann afhentan um næstu mánaðarmót. Við bíðum spennt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir