Mikil ánægja með nýjan gangnamannaskála á Grímstunguheiði
Gangnamenn úr Vatnsdal og Þingi vígðu á dögunum nýjan gangnamannaskála á Grímstunguheiði. Hann kemur í stað þriggja eldri skála á leitarsvæði þeirra. Húnavatnshreppur fjármagnar þessar framkvæmdir. Í tilefni vígslunnar sunnudaginn 5. september klæddu menn sig upp á og nutu veislufanga í boði Birgis Ingþórssonar, gangnaforingja í Undanreið.
Að sögn Jóns Gíslasonar á Hofi í Vatnsdal þá gistu allir gangnamenn á Grímstungu- og Haukagilsheiðum í skálanum, um 40 manns, og voru sammála um að með tilkomu hans hefði verið tekið stórt framfaraskref inn í 21. öldina hvað varðar aðbúnað í göngum. Í skálanum eru 27 eins og tveggja manna herbergi en auk þess er matsalur í skálanum og nokkur baðherbergi. „Það var sko vel þegið að geta farið í sturtu eftir daginn,“ segir Jón. Auk þess er líka nýtt hesthús við skálann en hann hefur ekki ennþá fengið formlegt nafn.
Göngur gengu ágætlega og vel viðraði alla gangnadagana. Réttað var í Undirfellsrétt 10. og 11. september, féð leit vel út og lömbin virtust væn.
Myndirnar sem hér fylgja í óreglulegri röð tók Jón Gíslason.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.