Mikið stuð í Stólnum um helgina!

Ert þú tilbúin í stærsta skíða- og snjóbrettaviðburð Skagafjarðar frá upphafi? Já, Tindastuð verður haldið öðru sinni á skíðasvæðinu í Tindastólnum nú á laugardaginn en viðburðurinn var fyrst haldinn síðasta vetur og heppnaðist þá vonum framar. Ekki er annað að sjá í veðurkortunum en að nóg ætti að verða af snjó á svæðinu, spáð er hita um frostmark og vindi um 2-3 metrana. Er hægt að óska sér að hafa þetta betra?

Sigurður Hauksson, umsjónarmaður svæðisins, lofar miklu stuði um helgina. „Það verður gönguskíðanámskeið á laugardaginn með heimsbikarkeppandanum í norrænni tvíkeppni, Anniku Malacinski. Svo er stærsta kvöldskíðun landsins á laugardagskvöldið þar sem það er séropnun á skíðasvæðinu, stórt og mikið svið í miðri brekku og tónlistarmenn halda uppi stuðinu. Úlfur Úlfur koma fram, Gusgusar og Flóni!,“ segir Siggi og vísar þá í Tindastuðið.

Þá verður DJ á efra svæðinu og Bankastræti Club mætir á svæðið. Opnunartímar verða hefðbundnir um helgina en sérstök opnun á laugardagskvöldinu frá kl. 19:30-23:30. Var búið að nefna að það verður mikið fjör?

Sjá nánar um Tindastuð >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir