Margir áttu um sárt að binda á jólunum 1935 - Mannskaðaveðurs minnst að 80 árum liðnum
Þann 14. desember eru 80 ár liðin frá einu mesta mannskaðaveðri í manna minnum. Þann dag árið 1935 gerði skyndilegt áhlaupsveður um allt land, nema Austfjörðum, með skelfilegum afleiðingum; 25 manns lágu í valnum, mikið eignatjón varð, fé fennti víða og hrakti í sjó og vötn. Þrír sveitabæir brunnu til kaldra kola og eitt hús á Siglufirði. Átta manns fórust í Skagafirði og eftir var samfélag í sorg.
Atburðir þessa dags, og dagana á eftir, eru raktir í Sögu Sauðárkróks. Í bókinni segir að það hafi verið sjaldgæft að hægt hafi verið að stunda róður frá Sauðárkróki í desember en 1935 gaf oft á sjó því stormadagar voru óvenju fáir miðað við árstíma. Föstudaginn 13. desember var frostleysa og veður mjög kyrrt, en dimmt yfir. Fram kemur að sjómönnum hafi þótt einstætt að róa þessa nótt því framundan voru líklega landlegur og atvinnuleysi, eins og venjan var yfir vetrarmánuðina.
Nokkrar skipsáhafnir bjuggust til róðra og héldu vélbátarnir Aldan, Baldur, Björgvin, Leiftur og Njörður út á milli kl. 1 til 4 þessa nótt. Veðurspáin var slæm: vaxandi norðaustanátt með snjókomu en menn uggðu það ekki að sér og þegar lagt var frá landi var lognið mikið, svikalogn, eins og sagt var. Í frásögn Sveins Sölvasonar formanns á Baldri segir: „Við héldum svo af stað í land og ætluðum venjulega leið grunnt inn með Reykjaströnd, en við komum rétt inn fyrir Ingveldarstaðahólma, byrgir hann glennuna yfir Skagann, og þar sjáum við sjóina koma eins og risaháa garða norðan fjörðinn og stórhríð um leið með norðan hvassviðri. Ég hef aldrei fyrr né síðar vitað norðanveður koma svo snöggt. Það voru ekki tíu mínútur frá því sjór var ládauður, þar til kominn var stórsjór, hvassviðri og hríð.“
Veðrið skall á laust fyrir hádegi. Á Sauðárkróki var sagt að stórhríð hafi brostið af norðri með geysilegum sjógangi í skjótri svipan, og þeyttist brimlöðrið upp um fremstu húsin. Þær fregnir tóku að berast um þorpið að trillubátar hafi farið út um nóttina og hófst þegar mikill viðbúnaður við bryggjuna að taka á móti þeim. Baldur kom fljótlega að bryggju, um kl. 13:30, og gekk fljótt og vel að hífa bátinn upp á bryggjuna. Svo hófst ömurleg bið eftir hinum bátunum, mönnum skipað vörð og rýnt út í sortann. Brimið og veðurofsinn jókst enn. Um þrjúleytið sást til báts úti fyrir sem hafði uppi segl, var það Leiftrið, bátur Pálma Sighvats, hann hafði fengið á sig sjó og orðið vélarvana. Bátnum var komið slysalaust upp á bryggju. Enn vantaði tvo báta, Ölduna og Njörð, og degi mjög tekið að halla. Veðrið færðist enn í aukana, raflínur slitnuðu niður svo að bærinn varð ljóslaus með öllu. Þegar ógerlegt var að halda ljósum lifandi á bryggjunni og innsiglingarljósum úti á Eyrinni var brugðið á það ráð að fara með tvo bíla á Borgarsand og látið ljós lifa á þeim. Þegar öðrum bílnum var snúið upp í veðrið gekk framrúðan inn. Alla nóttina stóðu menn á verði og gengu fjörur, fáir ef nokkur svaf þessa örlaganótt.
Fjölmenni beið bátsverjanna á bryggjunni
Um eða laust eftir miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 15. desember geisaði óveðrið enn og þá fór hópur manna niður að Vesturósi. Þar fannst fyrsti sjórekni hluturinn úr Nirði, kassi utan um áttavita, en næstu daga ráku fleiri hlutir úr bátnum en engan mann. Ljóst var að báturinn hafði farist.
Veðrinu hafði slotað að mánudeginum. Eftir mikla leit fannst Aldan á svonefndu Hólmatagli, rifi norðaustur af Elínarhólma við Kolkuós. Hún hafði brotnað og sat aftasti hluti hennar þar en framhlutinn rekinn í Brimnesgili, ásamt líki hásetans Ásgríms Guðmundssonar frá Fagranesi. Lík hinna þriggja fundust í fjörunni niður undan Kolkuósi. Lík bátsverjanna var flutt til Sauðárkróks, nema Björns Sigmundssonar sem var flutt til ættingja á Hofsósi. Báturinn Blíðfari var sendur á eftir þeim og beið þeirra fjölmenni á bryggjunni á Sauðárkróki. Auk fyrrnefndra Ásgríms og Björns, fórust með Öldunni Magnús Hálfdánarson frá Hólkoti á Reykjaströnd og Bjarni Sigurðsson formaður. Með Nirði fórust Sigurjón Pétursson formaður, Margeir Benediktsson og Sveinn Þorvaldsson hásetar, Sveinn fór á þennan túr í forföllum annars. Áður en óljóst var um afdrif Öldunnar, barst sú fregn, að Helgi Gunnarsson bóndi á Fagranesi, mágur Ásgríms, hefði orðið úti á leiðinni heim til sín óveðursnóttina.
Um mennina er sagt að þeir hafi allir verið hinir vöskustu og á besta aldri, að undanskildum Ásgrími sem var liðlega fimmtugur. Ljóst er að óvenjumargir hafi átt um sárt að binda á jólunum 1935. Á gamlárskvöld 1935 orti Ísleifur Gíslason eftirfarandi erindi:
Þetta árið margir muna,
mjöll og bárur ollu grandi,
flakir í sárum fólk af bruna,
falla tárin óstöðvandi.
Blessaðu árin – bið eg hljóður –
bægðu fári elds og hranna,
þerraðu tárin, Guð minn góður,
græddu sárin þjáðra manna.
Á morgun, 13. desember, verður slyssins minnst í messu í Sauðárkrókskirkju.
Heimild: Kristmundur Bjarnason (1973). Saga Sauðárkróks. Síðari hluti II. 1922-1948. Sauðárkrókur: Sauðárkrókskaupstaður.
[Grein birt í Jólablaði Feykis 26. nóvember 2015]
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.