Lítið ljós tileinkað minningu Lalla
Nú í vikunni leit nýtt lag eftir Svein Arnar Sæmundsson dagsins ljós en lagið kallast einmitt Lítið ljós og er gullfallegt. Sveinn Arnar er frá Syðstu-Grund í Akrahreppi en hefur undanfarin 19 ár starfað sem organisti á Akranesi. „Lagið er tileinkað minningu vinar míns, Lárusar Dags Pálssonar,“ segir hann aðspurður um tilurð lagsins.
Lagið var tilbúið í lok janúar á þessu ári en Sveinn segist ekki hafa komið því áleiðis í vinnslu fyrr en apríl. Textinn er eftir Hinrik Má Jónsson, ábúanda á Syðstu-Grund. „Hinrik kom með textann til mín í nóvember í fyrra. Í honum er líka huggun og von og vil ég einnig tileinka það öllum þeim sem misst hafa ástvini.“
Hverjir komu að gerð lagsins? „Lagið fór í vinnslu hjá Baldri Ketilssyni sem er með upptökustúdíó í Leyni í Hvalfjarðarsveit. Hann tók það síðan upp á sína arma og sá um vinnslu. Söngkonan heitir Ásta Marý Stefánsdóttir. Hún missti fjögurra mánaða son sinn í september í fyrra og tengdi strax afar vel við texta og lag og gerði þetta óaðfinnanlega.“ Sveinn Arnar segir að Hafþór Karlsson hafi séð um hljóðblöndun lagsins en Heiðar Mar Björnsson,kvikmyndagerðarmaður á Akranesi, hafi haft umsjón með gerð myndbands. „Ég ákvað síðan að lagið kæmi út núna í byrjun september en 10. september er Alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna. Lárus átti afmæli þann 6. september og þann 8. september var ár liðið frá andláti litla stráksins hennar Ástu söngkonu og er 8. september útgáfudagur lagsins.“ Lagið kom einnig út á ensku undir heitinu Tender Light og það var Tómas Guðmundsson á Akranesi sem þýddi textann.
Hefurðu samið mikið í gegnum tíðina? „Ég hef töluvert gert af því að semja en lítið af því farið í útgáfu. Guðrún Gunnarsdóttir söng þó lag eftir mig inn á plötu fyrir þremur árum sem heitir Eilífa tungl en platan hennar heitir einmitt eftir því lagi.
Nú hefurðu starfað sem organisti við Akraneskirkju í 19 ár en hefur nú fært þig sunnar. Hvað kom til? „Það var komin tími ti breytinga. Langur tími. Og þó að mér hafi liðið vel á Akranesi og gengið allt í haginn í mínu starfi þá fannst mér ég þurfa að breyta aðeins til og kanna nýjar slóðir. Ég réði mig til starfa í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði og líst vel á allt sem kirkjan hefur upp á að bjóða.“
Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga er 10. september. Tilgangur dagsins er að stuðla að forvörnum sjálfsvíga og minnast þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Í tilefni dagsins verða samverustundir víðsvegar um landið.
Sveinn Arnar svaraði Tón-lystinni í Feyki haustið 2016 og hér má finna slóð á það viðtal >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.