Litið inn til Lilju í Skrautmen - 2. þáttur Fyrirmyndarfrumkvöðla
Í öðrum þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla fáum við að kynnast Lilju Gunnlaugsdóttur, sem rekur handverksfyrirtækið Skrautmen, og líta inn í vinnustofu hennar að Áshildarholti í Skagafirði. Fyrirmyndarfrumkvöðlar er samstarfsverkefni Feykis og Skottu kvikmyndafjelags.
Í þættinum gefur Lilja áhorfendum innsýn í vinnsluferlið og hvernig hún lætur hugmyndir sínar verða að veruleika. Jafnframt hvernig henni gekk að koma fyrirtækinu á koppinn, hvaða úrræði hún hefur nýtt sér og hvernig henni hefur gengið að markaðssetja vörur sínar.
Sem fyrr segir er þetta annar þátturinn af sex, þar sem fyrirtæki heimsótt og farið er yfir starfsemina, allt frá hugmynd til framleiðslu. Viðmælendur eru inntir eftir því hvernig ferlið gengur fyrir sig og hvernig staðið er að hinum ýmsu þáttum starfseminnar. Í lokaþættinum koma viðmælendur allra sex fyrirtækjanna saman, ásamt þriggja manna ráðgjafanefnd, og ræða um frumkvöðlastarf. Í fyrsta þættinum var Gandur heimsóttur og má skoða hann hér.
Þáttagerðin er í höndum Árna Gunnarsson kvikmyndagerðarmanns, Berglindar Þorsteinsdóttur, ritstjóra Feykis og Kristínar Einarsdóttur, blaðamanns hjá Feyki. Þáttastjórnendur eru Berglind og Kristín en um upptökur og eftirvinnslu sér Árni Gunnarsson.
Hérna má sjá fyrsta þátt Fyrirmyndarfrumkvöðla, þar sem vörulínan Gandur var til umfjöllunar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.