Leynigestur á barmi heimsfrægðar á Sumartónleikum Menningarfélags Húnaþings vestra
Menningarfélag Húnaþings vestra var formlega stofnað í desember síðastliðnum með það að markmiði að hlúa að hverskyns menningarstarfsemi í héraðinu, skapa umgjörð fyrir fólk til að iðka menningarstarf og að skipuleggja viðburði. Á morgun, laugardaginn 4. júní, verður fyrsti viðburðurinn á vegum félagsins haldinn, Sumartónleikar Menningarfélags Húnaþings vestra, sem fer fram í Sjávarborg á Hvammstanga og verða fjáröflunartónleikar til að renna stoðum undir starfsemi félagsins.
„Það er glæsilegt húsnæði og gaman að halda tónleika þar. Þar munu koma fram tónlistarmenn úr héraði, Harpa Þorvaldsdóttir sem er nýlega búin að gefa út geisladisk sem hefur fengið góðar viðtökur og Hrafnhildur Ýr frá Dæli í Víðidal, sem tók m.a. þátt í The Voice. Svo verða Kings of the stone age, sem er bluegrass-pönksveit sem er skipuð heimamönnum að spila og síðast en ekki síst sérstakur leynigestur sem rambar á barmi heimsfrægðar en kemur nú fram í heimabyggð í fyrsta skipti í langan tíma. Ljóðalestur verður líka í bland við tónlistina til þess að undirstrika það að félagið á ekki eingöngu að snúast um tónlist, og munu Einar Georg Einarsson og Sigurbjörg Friðriksdóttir flytja ljóð, en bæði hafa nýlega gefið út ljóðabækur sem fengið hafa góðar viðtökur. Að lokum tónleikunum verður dansiball þar sem DJ Heiðar heldur uppi stuðinu,“ segir Vilhelm í viðtali í Feyki vikunnar þar sem hann segir frá tildrögum þess að Menningarfélagið var stofnað og markmið félagsins.
Hugmyndin vatt upp á sig
„Okkur datt það í hug að búa til félagsskap í kringum rekstur á æfingahúsnæði fyrir tónlistarfólk og svo vatt það uppá sig og í staðinn fyrir að einblína eingöngu á tónlist þá ákváðum við að stefna að því að setja á fót einskonar menningarmiðstöð fyrir alla sem vilja stunda einhverskonar menningarstarf. Hugmyndin er að hlúa að hverskyns menningarstarfsemi í héraðinu, bæði með því að skipuleggja viðburði og taka þannig þátt en fyrst og fremst með því að skapa umgjörð fyrir aðra til að iðka menningarstarf, með því að bjóða uppá þetta húsnæði sem að á þá að verða öllum tækjum búið,“ útskýrir Vilhelm.
Viðtalið við Vilhelm má lesa í Feyki vikunnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.