Leður, loð og dúnmjúkar ullaryfirhafnir í hausttískunni
Það er svo margt sem mig langar til að skrifa um í fyrsta blogginu að það væri efni í heilt tímarit en ætli niðurstaðan verði ekki tengt haustinu fallega sem er að birtast okkur hægt og rólega þessa dagana. Þetta er uppáhalds tíminn minn á árinu því ég er vog sem þolir illa hita og raka og er örugglega ein af fáum sem vældi ekkert á facebook yfir sumrinu okkar og var bara mjög þakklát fyrir það sem við fengum.
En þegar veðrið fer kólnandi þá veljum við okkur þykkari yfirhafnir og margir hverjir skella á sig húfu, setja upp vettlinga og vefja um sig trefil eða klút. Sandalarnir sem við notuðum svo mikið í sumar, allavega hér á norðurlandinu, fara inn í skáp og huga þarf að vetrarskónum.
En hvað er í tísku í vetur fyrir kvenfólkið? Stórt er spurt og eftir að hafa þrætt helstu heima- og facebooksíður hjá hinum ýmsu tískuvöruverslunum, bæði hér heima og erlendis, fær maður góða mynd af því hvað er að gerast í hausttískunni í dag.
Leður og loð, tímalaus tíska!
Þeir litir sem eru áberandi í yfirhöfnum er svartur, grár (bæði dökkur og ljós), beige og svo læðist inn navy blár, flöskugrænn og vínrauður, sem mér þykir alveg ótrúlega fallegir haustlitir. En vínrauði liturinn, sem kallast Marsala, var valinn litur ársins 2015 og því ekkert skrítið að hann sjáist í haustlínunum hjá mörgum framleiðendum. Leður, leðurlíki og loð heldur áfram og þykir mér orðin frekar tímalaus tíska, alltaf jafn flott og ,,lekker“, þ.e. ef sniðin henta manneskjunni. Einnig sýnist mér á öllu að rúskinn sé að koma sterkt inn núna en það hefur ekki sést um nokkurt skeið og verður gaman að sjá hvort það lifir eitthvað lengur en eitt ,,season“.
Yfirhafnir eins og úlpur eru auðfundnar hér á landi. Margir eru að framleiða flottar úlpur en held ég geti fullyrt að 66° Norður og Cintamani eigi úlpumarkaðinn hér á Íslandi, enda með frábær snið og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þeir koma líka með nýja liti á hverju hausti þannig að það getur verið erfitt að falla ekki í þann pakka að kaupa sér fleiri en einn lit - ef maður hefur efni á því þar að segja. Því til þess að geta keypt sér nýja úlpu í dag þá þarf að taka lán en gæðin eru líka eftir því. Þú þarft kannski ekki að endurnýja fyrr en eftir nokkur ár og má því segja að kaupa sér úlpu í dag er ákveðin fjárfesting. Það eru reyndar margir aðrir framleiðendur að koma sterkir inn eins og Zo-on og Icewear en samt virðist eins og 66°N og Cintamani hafi náð að festa sig í hugum fólks þannig að ef þú heyrir orðið úlpa þá dettur manni fyrst í hug þessir tveir.
Ullarjakkar eru áberandi í haust en síddin á þeim nær bæði rétt fyrir ofan og neðan hné. Þeir eru bæði með beinu sniði og aðsniðnir með stórum kraga sem hægt er að taka upp til að verja hálsinn fyrir kuldanum. Einnig er áberandi að þeir séu með belti en það gerir þá bæði kvenlegri og klæðilegri.
Veldu þér fylgihluti í lit
Það er allur gangur á húfutískunni í haust; þykkar, þunnar, djúpar og grunnar en mest áberandi eru loðhúfurnar eða ,,rússahúfurnar“ og loðeyrnabönd, ásamt prjónahúfum með loðdúsk. Þar er sama sagan með litina eins og í yfirhöfnum, en gerðu mér nú þann greiða að ef þú ert í svartri yfirhöfn, ekki kaupa þér svarta húfu, trefil eða vettlinga. Veldu þér einhvern fallegan lit til að lífga aðeins upp á þig. Við Íslendingar erum alltof gjörn á að velja alltaf svart, svart og meira svart því hugsunin er að það sé svo praktískt og passar við allt, sem er alveg rétt, en það eru líka fleiri litir sem passa vel við hvorn annan.
Hringklútar og stórir treflar hafa verið áberandi í nokkur ár og er helsta breytingin þar litirnir og mynstrin. Talandi um mynstur þá hef ég séð glitta aðeins í köflótt sem mér þykir alltaf skemmtilegt og gaman að sjá aðra klæðast, en hef lítið klæðst því sjálf. En kannski maður verði komin með einn köflóttan trefil um hálsinn í vetur, hver veit.
Hægt er að fá vettlinga í öllum gerðum og litum en mest áberandi eru leðurhanskarnir og þykir mér þeir alveg málið þegar taka á utan um kalt stýrið. Ekki er það verra ef þeir eru fóðraðir, þeir eru líka svo dömulegir og fullkomna ,,lookið“.
Skótískan er svo efni í næsta blogg en þar er ég komin á heimavöll og get endalaust talað um þá.
Hér fljóta svo nokkrar myndir með til að sýna ykkur skemmtilegheitin í haust.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.