Karólína í Hvammshlíð valin maður ársins í Austur-Húnavatnssýslu
Húnahornið stóð fyrir vali á manni ársins í Austur-Húnavatnssýslu nú um áramótin og var þetta í sautjánda sinn sem netmiðillinn góði stendur fyrir þessu vali. Úrslitin á manni ársins 2021 voru tilkynnt í dag og koma sennilega ekki verulega á óvart því Karólína Elísabetardóttir athafnakona og bóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð hefur heldur betur vakið verðskuldaða athygli vegna riðurannsókna.
Í fréttinni á Húnahorninu segir: Undir forystu [Karólínu] var síðastliðið vor hafin leit að erlendum rannsóknum sem sýna fram á lausnir gegn riðuveiki. Í kjölfarið var rannsóknarhópur stofnaður sem fann svo nýverið verndandi arfgen gegn riðu.
Á síðasta ári leiddi Karólína saman vísindafólk frá ýmsum löndum í þeirri viðleitni sinni að færa riðurannsóknir hér á landi til nútímans og um leið á sömu braut og gert hefur verið í öðrum löndum um langt skeið. Markmiðið var að leita að genum í íslenskum kindum sem reynst gætu verndandi gagnvart riðusmiti. Nýverið fann rannsóknarhópurinn verndandi arfgen gegn riðu í sex kindum á sveitabæ í Reyðarfirði. Tíðindin þykja stórmerkileg og marka tímamót í baráttunni við að útrýma riðuveiki á Íslandi. Næsta skerf er að fara af stað í ræktunarstarfi til að koma þessari verndandi arfgerð sem hraðast inn í íslenska stofninn án þess að draga um of úr erfðafjölbreytileika hans.
Lesendur Húnahornsins hafa greinilega fylgst vel með Karólínu og hennar frumkvöðlastarfi. Hún hefur einnig gefið út dagatöl sem vakið hafa mikla athygli og það nýjasta sem hún er að sýsla við er framleiðsla osta sem hún hefur gefið heitið Hvammshlíðarostar. Karólína í Hvammshlíð býr á mörkum tveggja sýslna, Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu, á þeim slóðum sem vegurinn yfir Þverárfjall liggur hæst. Hún er þýsk að uppruna en settist að á Íslandi fyrir margt löngu.“
Segir síðan í fréttinni að öllum sem sendu inn tilnefningar í valinu sé þakkað fyrir að taka þátt. Fjölmargir fengu tilnefningar en Karólína fékk þó langflestar. Jafnir í öðru og þriðja sæti í valinu voru Jóhannes Torfason, framkvæmdastjóri Ámundakinnar, og Jón Aðalsteinn Sæbjörnsson, formaður sóknarnefndar Blönduóskirkju, og í fjórða sæti var Valdimar Guðmannsson, sem kosinn var maður ársins 2020.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.